Skoðun

Ferðaþjónustan: Meira þarf til

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðmálastjóri varar við að álag á samfélagið komi niður á gestrisni vorri (Fbl. 26.07.). Hún bendir á að megingagnrýni á þróun ferðaþjónustunnar varði sein viðbrögð opinberra aðila og einkageirans við álaginu. Í framhaldi af þessum orðum er vert að minnast á hugtakið þolmörk.

Byggðir, bæir, borgin og ólíkir geirar samfélagsins hafa illskilgreinanleg þolmörk frammi fyrir þjónustuhlutverki; ekki bara ein heldur mörg. Fólk hefur persónuleg þolmörk, annað atvinnulíf en ferðaþjónusta hefur þolmörk og innviðir hafa þolmörk o.s.frv. Þar í blandast ólíkar skoðanir á hvað er réttara en annað þegar ferðaþjónustulestin æðir áfram, sífellt hraðar (í bili). Það er flókið verk að búa þannig um að þessi þolmörk séu sæmilega ljós og í samræmi við lýðræði. Til þess þarf frumkvæði einkaaðila, samtaka og umfram annað: Stjórnvalda á stigi sveitarstjórna og ríkisvalds.

En svo eru það hin þolmörkin: Þolmörk umhverfis, bæði þess manngerða og náttúrunnar. Allar umhverfisnytjar og þá sér í lagi náttúrunytjar hafa sín þolmörk. Um þau hefur verið rætt oft og lengi en þau nær ekkert tengd inn í raunveruleikann, þ.e. blússandi fjölgun dýrmætra ferðamanna sem verða sennilega nær áttfaldur fjöldi fullorðinna landsmanna við árslok 2016.

Vegvísir í ferðaþjónustu (október 2015) sem Samtök ferðaþjónustunnar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu að er einungis grunnur að stefnu, langur verkefnalisti.

Stefnan sjálf verður til þegar unnið er úr þessum vegvísi, hann bundinn áætlunum, hengdur verðmiði á mikilvæg atriði og ákveðið hvernig peninganna er aflað. Lítið hefur enn sést til þess alls og er þá ekki gert lítið úr auknum fjárveitingum eða nýjungum. Heildina vantar. Inn í alla þá vinnu verður að flétta þolmörkum (eins erfitt og það kann að reynast). Fyrsta skrefið er að viðurkenna að ferðaþjónusta lýtur ekki ósvipuðum takmörkum og aðrar náttúru- og samfélagsnytjar. Kannski getum við tekið á móti 10.000 manns á dag við Seljalandsfoss (ekki 50.000), 1.000.000 manns á ári í núverandi þjóðgarði á Þingvöllum (ekki 2.000.000) og 3.500.000 ferðamönnum á ári til landsins (ekki 6.000.000) – ef við viljum halda uppi fjölbreyttu mannlífi, fjölbreyttri atvinnu og áhugaverðu náttúruumhverfi. Eða hvað?

Tölurnar eru aðeins hlutgervingar af minni hálfu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×