Innlent

Ferðamenn flykkjast í selaskoðun til að sjá ísbjörn

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Nóg hefur verið að gera í selaskoðun við Hvammstanga frá því að fregnir bárust af því að hvítabjörn væri á svæðinu. Ferðamennirnir vilja ólmir fá að kanna hvort björninn sé í leit að æti á þessu selsælasta svæði landsins.

Báturinn Brimill siglir með ferðamenn um Húnaflóann þar sem þeim gefst kostur á að skoða seli. Nóg hefur verið að gera hjá bátnum og áhöfninni síðustu daga enda er spennandi að sjá hvort selaskoðunarferðin gæti breyst í ísbjarnarskoðunarferð. Ekki er hægt að fullyrða að ísbjörninn sé í ætisleit í Húnaflóa, en þar allavega nóg af sel.

„Það er nóg af sel og urtan er nýbúin að losa sig við kópana. Hún er bara með þá á spena í sex vikur. Þeir eru forvitnir svo það er örugglega ekki flókið fyrir hann að fá sér kóp í matinn. Ég er alveg viss um það," Kjartan Sveinsson, selaskoðunarleiðsögumaður.

Hann segir ferðamennina hafa mikinn áhuga á að sjá ísbjörn.

„Þeir eru náttúrlega svolítið spenntir. Það væri mjög gaman að sjá hann en það eru mjög litlar líkur á því held ég. Þetta er mikið svæði sem hann getur farið um svo ég hugsa að það séu meiri líkur á að vinna í lottóinu en að sjá ísbjörninn á þessu svæði," segir Kjartan.

Hann segir ferðamennina hins vegar ekki hrædda við björninn.

„Ég held að þeir séu nú fyrst og fremst spenntir yfir þessu. Auðvitað er mjög skemmtilegt fyrir okkur að geta sagt að það sé ísbjörn á svæðinu. Það hefur ekki gerst í tugi ára. Og að fá svona veður þegar maður er á svæðinu er frábært," segir Kjartan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×