Innlent

Ferðakostnaður gæti haft áhrif á kosningar

Benedikt Bóas skrifar
Guðni Bergsson og Björn Einarsson eru í kjöri til formanns KSÍ.
Guðni Bergsson og Björn Einarsson eru í kjöri til formanns KSÍ. vísir/anton brink
Félög á landsbyggðinni eru uggandi yfir kostnaðinum sem fylgir því að fara til Vestmannaeyja og kjósa um nýjan formann KSÍ. Sérstaklega ef þarf að kaupa tvö flugsæti, til Reykjavíkur annars vegar og Vestmannaeyja hins vegar.

Flugfélagið Ernir verður með fimm aukaflug í tengslum við ársþingið og kostar hvert flugsæti 25 þúsund krónur. Þá hefur KSÍ tekið frá herbergi í Vestmannaeyjum fyrir þingfulltrúa en sambandið greiðir ekki fargjaldið eða gistinguna fyrir fulltrúana. Það býður þó til kvöldverðar eftir þingið.

Minni félög í landinu hreinlega geta ekki séð af fé í þennan kostnað samkvæmt samtölum við nokkra formenn. Flestir hafa þeir greitt fyrir ferðina á ársþingið undanfarin ár úr eigin vasa.

Ársþing KSÍ fer fram á laugardag. Ekki verður aðeins kosið um nýjan formann sambandsins heldur verður einnig kosið í aðalstjórn, kosnir aðalfulltrúar landsfjórðunga, varamenn í aðalstjórn og kosið í nefndir. Alls eiga 153 fulltrúar rétt til setu á ársþingi en ljóst er að ekki koma allir á þingið, en 146 voru skráðir á þingið í fyrra og mættu um 120. Í gær voru 83 búnir að skrá sig. Spennan er mest um formannsembættið. Tveir eru þar í kjöri, Björn Einarsson og Guðni Bergsson. Til þess að ná kjöri sem formaður þarf meirihluta greiddra atkvæða.

Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu skal kjósa á ný. Í seinni umferðinni ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Verði frambjóðendurnir aftur jafnir skal kjósa á ný með sama hætti. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að 30 ár séu frá síðasta ársþingi sem fram fór í Vestmannaeyjum.

„Ég skil alveg að þetta er kostnaður sem er hærri en venjulega en það á ekki að stoppa fólk. Að vera með svona kosningaþing, það hefði vissulega verið auðveldara að hafa það á heimavelli. Þá hefðum við haft okkar tæki og tól en við sendum stóran pakka með Herjólfi á fimmtudag ásamt tveimur starfsmönnum til að undirbúa þingið,“ segir Klara.

Félögin í efstu deild hafa fjögur atkvæði en minnstu félögin í landinu hafa eitt atkvæði. Önnur hafa tvö til þrjú atkvæði. „Við eigum von á spennandi þingi. Yfirleitt hefur það verið búið um klukkan 16 en það gæti teygst til 18 vegna allra kosninganna,“ segir Klara.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×