Innlent

Fellsmúlamálið: Mönnunum tveimur sleppt úr haldi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá störfum lögreglu við Fellsmúla í gær.
Frá störfum lögreglu við Fellsmúla í gær.
Búið er að sleppa mönnunum tveimur úr haldi sem handteknir voru við Fellsmúla í gær. Var talið að mennirnir tveir tengdust máli sem varðar ásakanir um frelsissviptingu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir rannsókn málsins hafa leitt í að aðkoma þeirra að málinu var lítil eða engin. Pars á þrítugsaldri er enn leitað vegna málsins.

Mennirnir voru handteknir á öðrum tímanum í gær en lögreglan getur haldið sakborningum í allt að sólarhring án þess að fara fram á gæsluvarðhald. Nú þegar styttist í að búið var að halda þeim í 24 tíma var ákveðið að sleppa þeim.

Aðkoman lítil eða engin

„Við teljum okkur vita um aðkomu þeirra að málinu, hún er annað hvort lítil eða engin,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, um málið. Aðspurður hver aðkoma þeirra var nákvæmlega að málinu segir Grímur að sést hafi til þeirra yfirgefa Fellsmúlann, án þess þó að þeir hafi verið beint á vettvangi málsins.

„Þeir eru staddir þarna á svæðinu, það má orða það þannig,“ segir Grímur. Hann segir rannsókn málsins hafa að endingu beint sjónum frá þeim.

Svipast um eftir parinu

Það var karlmaður sem tilkynnti lögreglu að honum hefði verið haldið gegn vilja í íbúð á fjórðu hæð í Fellsmúla 9. Par á þrítugsaldri, 26 ára karl og 22 ára kona, eru búsett í íbúðinni en lögreglan hefur lýst eftir þeim og stendur leitin enn yfir.

Sjá einnig: Konan gaf sig fram

Spurður hvort margir lögreglumenn komi að þeirri leit segir Grímur að verið sé að vakta hvar þau mögulega geta verið. „Við erum að svipast um eftir þeim en það er ekkert gengið hús úr húsi. Það er verið að vakta hvar þau geta verið,“ segir Grímur.

Hann segir hreinlega ekki vitað hvort þau séu stödd einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu eða hvort þau hafi farið út á land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×