Enski boltinn

Fellaini og Huth báðir í þriggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini og Robert Huth í leiknum umrædda.
Marouane Fellaini og Robert Huth í leiknum umrædda. Vísir/Getty
Marouane Fellaini hjá Manchester United og Robert Huth hjá Englandsmeisturum Leicester City voru í dag dæmdir báðir í þriggja bann fyrir framkomu sína í leik Manchester United og Leicester um síðustu helgi.

Robert Huth togaði í hárið á Marouane Fellaini sem svaraði með að efa Þjóðverjanum vænt olnbogaskot.

Marouane Fellaini missir af þremur síðustu deildarleikjum Manchester United á tímabilinu en getur verið með í bikarúrslitaleiknum á móti Crystal Palace sem verður á Wembley 21. maí næstkomandi.

Robert Huth missir af tveimur síðustu leikjum Leiecester sem og fyrsta deildarleiknum á næsta tímabili. Hann má hinsvegar taka þátt í leiknum um Samfélagsskjöldinn í ágúst en sá leikur telst til vináttuleikja.

Báðir leikmenn sættu sig við kæruna og því verða ekki frekari eftirmálar af þessu máli.

Dómarar leiksins misstu af atvikinu í leiknum og því gat aganefnd enska knattspyrnusambandsins tekið málið fyrir og dæmt þá í þetta bann.

Claudio Ranieri og lærisveinar hans í Leicester City fá Englandsbikarinn afhentan eftir heimaleik sinn á móti Everton á laugardaginn og Robert Huth fær væntanlega að vera með í verðlaunaafhendingunni þrátt fyrir leikbannið.

Danny Drinkwater er einnig í banni í þessum leik sem skiptir engu máli því Leicester City er búið að tryggja sér titilinn þegar tvær umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×