Innlent

Fékk heldur ekki að heita Blær og fagnar málaferlum

Birkir Blær skrifar
Þuríður heitir ekki Blær - opinberlega.
Þuríður heitir ekki Blær - opinberlega.
Þuríður Blær, leikaranemi, fagnar málaferlum gegn innanríkisráðherra til að fá úrskurði mannanafnanefndar um að konur megi ekki heita Blær ógilta. Þuríður er einn þeirra stúlkna sem aldrei fékk að heita Blær opinberlega og hefur gegnum tíðina staðið í miklu stappi við mannanafnanefnd vegna þessa.

Þuríður og aðstandendur hennar gengu aldrei svo langt að höfða mál. Þau skrifuðu hins vegar mannanafnanefnd ítrekað bréf og bentu á rök fyrir því að stúlkur mættu heita Blær.

Aðeins viku áður en átti að gefa Þuríði nafnið Blær hafði mannanafnanefnd ákveðið að stúlkur mættu ekki bera karlmannsnöfn nema fordæmi væru fyrir því í málinu, að sögn Þuríðar Blævar. „En málið var að það var fordæmi fyrir því," segir Þuríður Blær enda er vitað til þess að ein kona heiti Blær í þjóðskrá, en sú er fædd árið 1973.

„Mannanafnanefnd þótti fordæmið hins vegar ekki nógu skýrt, það bæri ekki vott um hefð," segir Þuríður Blær. Öfugt við karlkyns orðin auður og ilmur komst því mannanafnanefnd að þeirri niðurstöðu að stúlkur mættu ekki bera karlmannsnafnið Blær.

Málaferli

Fjórtán ára dóttir Bjarkar Eiðsdóttur hefur nú höfðað mál gegn innanríkisráðherra til að fá þessum úrskurðum mannanafnanefndar hnekkt eins og mbl.is greindi frá í dag. Stúlkan fékk ekki að heita Blær á sínum tíma og hefur síðan gengið undir nafninu Stúlka Bjarkardóttir í opinberum skjölum. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið reynt að fá úrskurði mannanafnanefndar ógilta.

Þuríður Blær fagnar þessum málatilbúnaði innilega. „Já, ég fagna þessu. Algerlega!" segir hún. „Það er náttúrlega dálítið búið að dauðadæma þetta ef hún tapar. En ef hún vinnur þá finnst mér að ég ætti líka að fá að heita Blær. Og allar hinar stúlkurnar sem eru í sömu sporum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×