Innlent

Fangar í námi verða góðborgarar

Ingis Ingason, kennslustjóri á Litla-Hrauni, lætur af störfum um áramótin.
Ingis Ingason, kennslustjóri á Litla-Hrauni, lætur af störfum um áramótin. Fréttablaðið/GVA
„Mesta gleðin er fólgin í því að horfa á eftir manni ganga héðan út beinni í baki en áður og heyra svo af honum sem góðborgara í samfélaginu. Þeir eru nokkrir og tilhugsunin er verulega góð,“ segir Ingis Ingason, kennslustjóri FSu á Litla-Hrauni, sem kom fyrst að kennslu á þeim stað árið 1982 og hefur sinnt stöðu kennslustjóra frá árinu 1987.

Ingis lætur af störfum um áramótin eftir áratuga starf. „Mér finnst alltaf ánægjulegt þegar nemendur mínir ná góðum árangri. Maður reynir að hafa þá biblíuhugsun að vera ekkert að gráta þá 99 sauði sem týnast heldur gleðjast yfir þeim eina sem skilar sér aftur. Annars væri þetta dálítið erfitt.“

Í desembermánuði hefur verið fjallað um menntamál fanga í Fréttablaðinu. Varpað hefur verið ljósi á skort á heildrænni stefnu og fjárskort sem háir málaflokknum. Staða náms- og starfsráðgjafa við fangelsin í landinu hafi verið skert um 50 prósent vegna niðurskurðar og sagt hefur verið frá mismunandi aðbúnaði fanga til náms eftir því hvar þeir afplána sinn dóm.

Háskólinn á Litla-Hrauni

Ingis tekur á móti blaðamanni í skólanum á Litla-Hrauni sem samanstendur af fáeinum litlum skólastofum á litlum gangi gegnt fangaálmunum. Á ganginum úr álmunni yfir í skólastofurnar á sér stað hugarfarsbreyting, segir Ingis. „Bara við það að ganga yfir lóðina, þá eru þeir á leiðinni úr fangelsinu í skólann. Það finnst þeim gott.“

Á pappírsmiða á einni hurðinni stendur: Háskólinn á Litla-Hrauni. Þar er sérstök aðstaða fyrir þá nemendur sem stunda fjarnám við háskóla landsins. „Einstaka sinnum gengur þetta undir nafninu Georgsstofa,“ segir Ingis. „Þið munið eftir Georg Bjarnfreðarsyni, með háskólagráðurnar fimm,“ segir hann og skellir upp úr.

Kennt í hænsnakofa

Skólinn á Litla-Hrauni er deild frá Fjölbrautaskóla Suðurlands en samstarf Litla-Hrauns við skólakerfið byrjaði 1978 og þá við Iðnskólann á Selfossi. Kennt var í setustofu vistmanna í fangelsinu.

„Árið 1978 var ráðinn hingað kennari. Þá var gefinn hingað gamall hænsnakofi sem var innréttaður annars vegar sem íbúð fyrir hann og hins vegar sem kennslustofa. Það var stutt fyrir hann að fara í vinnuna,“ segir hann frá. Það er fyrir löngu búið að rífa hænsnakofann.

Afleysing varð að ævistarfi

Ingis kom fyrst á Litla-Hraun árið 1981 til þess að aðstoða nemanda sem hafði verið í þýsku í MH en farið villur vegar. Sá hinn sami fékk fyrir góðan vilja kennara síns að vera áfram innritaður í skólann og Ingis mætti til hans í fangelsið til að leggja fyrir hann próf í þýsku.

„Það var stuttu eftir að FSu varð til, þá gekk gamli Iðnskólinn á Selfossi inn í hann og nám fanga fylgdi með. Forveri minn varð við það starfsmaður Fjölbrautaskólans. Hann var sem slíkur alveg fram í nóvember 1986. Þá kom þáverandi skólameistari og minn fyrrverandi þýskukennari, Þór Vigfússon, og spurði hvort ég gæti leyst þennan mann af til áramóta. Ég taldi að það væri stutt í áramót, en ég held að þau séu loks að koma núna,“ segir Ingis og hlær enda varð nokkurra vikna afleysing að ævistarfi að hluta til. Lengst af var kennslustjórnunin aðeins 25 prósent starfshlutfall, en er nú komin upp í 50 prósent.

Fylgst vel með netnotkun fanga

Þeir sem stunda nám á Litla-Hrauni innritast á brautir við Fjölbrautaskólann. Þeir eru í raun við nám í FSu og teljast nemendur skólans og hér er stundað fullgilt nám. „Við erum með staðbundið nám, það koma fimm kennarar hingað reglulega auk mín í viku hverri. Við erum líka með íþróttahús. Íþróttakennarinn kemur einu sinni í viku og kennir verklegar og bóklegar íþróttir. Það er jafnframt æfingasalur þeirra.“

Kennslan hefur þróast allmikið þau ár sem Ingis hefur starfað að málaflokknum. Nú gefst föngum kostur á að stunda fjarnám við FSu og ýmsa aðra skóla, jafnvel á háskólastigi. Notast er við rafrænt námsumhverfi, Moodle, og fylgst vandlega með samskiptum fanga innan þess kerfis. „Nemendur sem eru í fjarnámi hafa aðgang að netinu undir eftirliti mínu en með því skilyrði að þeir séu eingöngu að sinna náminu. Menn mega ekki einu sinni vera í póstsamskiptum við sína nánustu. Þetta er eingöngu bundið náminu.“

Þakkar afburðanemendum

Háskólanám á Litla-Hrauni hefur gengið vel vegna frammistöðu nokkurra afburðanemenda í afplánun.

„Við áttum verulega góðan kafla í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Það þakka ég Ágústi Þór Árnasyni. Hann var mikill driffjöður í að koma þessu á koppinn með okkur. Auðvitað skipti þar ekki minnstu máli að við vorum með afburðanemendur sem voru í námi hjá þeim. HA bauð upp á fjarnám, meðal annars í viðskiptafræði. Þessir drengir vildu fara í lögfræði. Þeir tóku reyndar bæði viðskiptafræði og lögfræði. Það varð úr að bjóða eingöngu þeim þetta fjarnám í lögfræði, það hefur haldist síðan einfaldlega vegna þess að þessir nemendur náðu svo frábærum árangri að menn voru tilbúnir að opna fyrir þennan möguleika.

Þetta voru tveir fangar sem lögðu stund á háskólanám í upphafi en nú er það á þriðja tug sem hefur stundað háskólanám frá Litla-Hrauni. Þetta hefur vakið verulega athygli kollega okkar erlendis. Alltaf á tveggja ára fresti eru ráðstefnur á vegum EPEA (www.epea.org), sem ég hef jafnan sótt og menn hafa ekki áttað sig á því hvernig hefur tekist að halda úti fjarnámi. Hvort þetta séu ekki örugglega glæpamenn sem eru hér,“ segir Ingis og brosir breitt.

En forskotið sem Íslendingar höfðu um stund er löngu horfið. „Við erum ekki lengur fremst í flokki. Yfirvöld í öðrum löndum eru búin að átta sig á hagkvæmni þess að nota nám sem betrun,“ segir Ingis og bendir á að nú dragi Íslendingar lappirnar og standist ekki ýmsar alþjóðlegar skuldbindingar varðandi menntamál fanga.

Nám er besta betrunin

Miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið á þeim tíma sem Ingis hefur starfað með föngum. „Það voru til þau sjónarmið áður að það væri ástæðulaust að vera að púkka upp á þetta og eyða fjármunum í menntun fanga. Nú eru menn sammála um að nám sé besta betrunin. Tölfræðin sýnir að þeir sem ljúka skilgreindu námi koma síður aftur. Mjög margir sem eru í námi hér hafa flosnað upp úr venjulega skólakerfinu. Þegar þeir ná sínu fyrsta prófi hér, þá nær brosið yfir allt andlitið. Sem verður til þess að menn átta sig á því að þeir geta lært ef þeir vilja.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að menn lenda hér í fangelsi, ég held að braut sumra hafi verið mörkuð ansi snemma. Ég tel mig nú ekki forlagatrúar og vil ekki að menn rugli því saman en það kemur upp í hugann það sem Goethe sagði: Man könnte erzogene Kinder gebären, wenn die Eltern erzogen wären. Það mætti snúa á íslensku sem svo; uppalin börn mætti af sér fæða ef uppalda foreldra væri um að ræða. Hins vegar er ekki alltaf við foreldrana að sakast, það er langt í frá.“

Hugurinn er utan múranna

Heyrst hefur að í skólanum á Litla-Hrauni séu stundum afkastamestu nemendur FSu.

„Einn nemenda okkar lauk 48 einingum á önn og 87 einingum á ári, það met stendur óhaggað. En hér hafa nemendur náð afburða einkunnum og eru stundum hæstir í faginu. En það er ekki svo að það sé vegna þess að þeir hafi meiri frið til að læra. Mesti misskilningur sem ég hef kannski upplifað er sá að hér hafi menn nógan tíma og geti einbeitt sér að námi. Það er nefnilega hægt að gera svo margt annað hérna en að læra. Ég held að það sé ekkert sérstaklega gott að einbeita sér hér. Hugurinn er utan múranna. Eitt er löngu fullreynt, maður reynir ekki að taka nemanda í próf stuttu áður en hann losnar. Má þá einu gilda hversu oft hann hefur losnað áður. Mjög margir sem hérna eru eiga við athyglisbrest að stríða, jafnvel ofvirkni líka og þurfa að hafa mikið fyrir árangri sínum.“

Nú eftir áramót taka við önnur verkefni hjá Ingis. Hann ætlar sér að leiða þýskumælandi ferðamenn um landið.

„Ég hef starfað síðan 1985 sem leiðsögumaður með þýskumælandi ferðamenn, það er skemmtilegt starf ef félagsskapurinn er góður.“

Ekki gæluverkefni

Mestu vonbrigðin í starfinu segir Ingis tengd stjórnmálum og þeim viðvarandi fjárskorti sem menntamál fanga eru lituð af.

„Stjórnmálamenn eru í raun lítt tilbúnir til að sinna þessum málefnum þótt þeir segi það á tyllidögum. Eigum við ekki að orða það þannig að skólamál í fangelsum hafi ekki verið neitt sérstakt gæluverkefni íslenskra stjórnmálamanna,“ segir hann.

Að sögn Ingis þarf meiri náms- og starfsráðgjöf. Einnig sé mjög takmarkað framboð af verknámi. Lítið gagn sé í að hafa náms- og starfsráðgjafa, ef of litlu fé er varið til kennslunnar í fangelsunum.

„Það þarf að tryggja að fangar geti tryggt sér réttindi af stuttum námsbrautum. Þessi tregða, að búa til fagmenntað fólk af stuttum brautum, er skammsýni. Slíkt fyrirkomulag myndi hafa úrslitaáhrif. Það, sem hefur gengið vel, er samstarf skólans og fangelsisins. Það hefur ekki borið skugga á þetta samstarf síðan ég byrjaði. Ég fæ seint þakkað hvað ég hef verið lánsamur hvað það varðar,“ segir Ingis Ingason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×