Innlent

Færir Tónlistarsafni Íslands aldargamla fiðlu

Eflaust lærði tónskáldið sitthvað á þessa fiðlu sem kom að gagni þegar hann samdi „Land míns föður.“Mynd/Tónlistarsafn Íslands
Eflaust lærði tónskáldið sitthvað á þessa fiðlu sem kom að gagni þegar hann samdi „Land míns föður.“Mynd/Tónlistarsafn Íslands
Flestir vita að Sigurður G. Tómasson liggur ekki á skoðunum sínum en færri vita að það á við um fleira í fórum hans því hann hefur gefið þjóðinni eina frægustu fiðlu landins. Hún var smíðuð í kringum 1880 í Þýskalandi og var í eigu áhrifamanna í íslenskri tónlistarsögu.

Hann hefði sjálfsagt getað selt hana, „en þetta er gripur sem á að vera í eigu þjóðarinnar,“ segir Sigurður. „Það borgar sig ekki að fara með gömul hljóðfæri á Þjóðminjasafnið því maður veit ekki hvernig búið er að hljóðfærum þar en það þarf að passa gömul strengjahljóðfæri mjög vel.“ Úr varð að hann færði Tónlistarsafni Íslands fiðluna enda segir útvarpsmaðurinn að þar sé unnið frábært starf og nokkur sögufræg hljóðfæri þar fyrir.

Fiðluna átti Þórarinn Guðmundsson, en hann var fyrstur íslenskra fiðluleikara sem lærði listgrein sína í erlendum tónlistarskóla. Eflaust kannast aðeins þeir fróðustu við nafnið enda spá fáir í hver samdi lagið þegar þeir söngla „Yfir kaldan eyðisand“ í söngvímu en það var einmitt Þórarinn gerði ljóð Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds að lagi. Einnig samdi hann lagið „Þú ert yndið mitt yngsta og besta“. Hann samdi svo og lagið við ljóð Jóhannesar úr Kötlum „Land míns föður“ og var það frumflutt á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum árið 1944. Ólíklegt er að nokkurt þeirra sé samið á þessa fiðlu því hana brúkaði Þórarinn til æfinga á lærlingsárum.

Fiðluna fékk Sigurður í arf frá Guðmundi Guðmundssyni, bróður fiðluleikarans. Guðmundur átti að nota hana til æfinga sem ekkert varð úr. „Guðmundur var mágur pabba míns og ég ólst mikið upp á heimili þeirra hjóna en þau áttu engin börn,“ segir Sigurður.

Ekki er öll sagan sögð því Sigurður segir allt benda til þess að þessi sögufræga fiðla sé sú sama og Söngfélagið Harpa gaf Jónasi Helgasyni þegar hann lét af söngstjórn þar árið 1887.

Hún er nú í spilahæfu formi en var þó ekki fýsileg þegar Sigurður fékk hana. Ívar sonur Þórarins, sem var fiðlusmiður, hafði þurft að nýta úr henni eitt og annað á haftaárunum þegar erfitt var að fá efni. En Sigurður átti hauk í horni því Hans Jóhannsson kom henni í samt lag og fræddi eigandann í leiðinni um eitt og annað sem hjálpaði honum að rekja sögu hennar. Hún er nú undir sama þaki og selló Erlings Blöndals Bengtssonar en það selló má sjá í styttuformi í fangi Erlings fyrir utan Háskólabíó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×