Innlent

Eyjamenn fá að kjósa um göng í Heimaklett

Bjarki Ármannsson skrifar
Heimaklettur í Eyjum.
Heimaklettur í Eyjum. Mynd/Daníel Steingrímsson
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja leggur til við bæjarstjórn að framkvæma íbúakönnun varðandi möguleikann á því að bora sjötíu metra löng göng í Heimaklett á Heimaey. Áhugahópur undir forystu Árna Johnsen, fyrrverandi þingmanns, hefur tekið saman gögn um málið og vill að göngin geri fólki mögulegt að ganga að Löngu.

Vísir hefur áður greint frá þessari hugmynd Árna og félaga, sem er alls ekki óumdeild í Eyjum. Hópurinn lagði fram gögn til umhverfis- og skipulagsráðs í lok janúar og fól ráðið þá skipulagsfulltrúa að taka saman minnisblað um þá valkosti sem mögulegir eru varðandi bætt aðgengi að Löngu.

Á fundi ráðsins nú á mánudag var erindið tekið fyrir að nýju og lagt til að íbúar fái að kjósa um þrjá kosti; göngugöng líkt og þau sem lögð eru til í umsókn áhugahópsins, óbreytt aðgengi eða endurbyggingu á gönguleið meðfram berginu. Ráðið kveðst áhugasamt um að auka aðgengi að Löngu og telur æskilegt að gefa íbúum beint og milliliðalaust svigrúm til að móta afstöðu sveitarfélagsins til þessarar framkvæmdar.

Sjá einnig: „Á góðum degi er Langan tvöföld Mallorca“

„Langan í Vestmannaeyjahöfn er stórkostlegt útivistarsvæði,“ sagði Árni Johnsen í samtali við Vísi nýverið. „Höfnin varð skítug á síðustu öld vegna þess að það fór skólp frá vinnslustöð í höfnina. Nú er það löngu breytt og hún orðin tær og fín aftur.“

Ljóst er þó að ekki verða allir jafnfljótið að greiða atkvæði með tillögunni og Árni, því í öðru samtali við Vísi lýsti Hulda Vatnsdal, íbúi í Vestmannaeyjum, yfir þeirri skoðun sinni að áætlanir um göng væru augljóslega ekki hugsaðar til enda.

„Þetta svæði er alveg stórkostlegt en við viljum ekki átroðning og eyðileggingu,“ segir Hulda. „Þetta hefur ekki verið hugsað til enda.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×