Sport

Esjumenn óstöðvandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Esjumenn fagna einu sex marka sinna gegn SA.
Esjumenn fagna einu sex marka sinna gegn SA. vísir/hanna
Sigurganga Esju í Hertz-deild karla í íshokkí hélt áfram á laugardagskvöldið. Þá mætti Esja Íslandsmeisturunum úr Skautafélagi Akureyrar og vann stórsigur, 6-0. 

Hanna K. Andrésdóttir, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Skautahöllinni í Laugardal á laugardagskvöldið og tók meðfylgjandi myndir.

Björn Sigurðarson, framherji Esju, reyndist Akureyringum erfiður í leiknum en hann skoraði fimm af sex mörkum Esju.

Björn braut ísinn eftir rúmlega 18 mínútna leik en það reyndist eina markið í 1. leikhluta. Björn var ekki hættur og gerði bæði mörkin í 2. leikhluta.

Hann skoraði sitt fjórða mark snemma í 3. leikhluta og nokkrum mínútum síðar skoraði Ólafur Björnsson fimmta mark Esju eftir undirbúning Björns og Snorra Sigurbjörnssonar. Björn skoraði svo sitt fimmta mark og sjötta mark Esju þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Egill Þormóðsson lagði upp þrjú af mörkum Björns í leiknum.

Esja er með talsverða yfirburði í Hertz-deildinni en liðið er með tíu stiga forskot á toppnum. Esjumenn hafa unnið tíu af ellefu leikjum sínum í vetur. Eina tapið kom gegn Skautafélagi Akureyrar fyrir tæpum tveimur vikum. Esjumenn hefndu þó fyrir það tap með sigrinum á laugardaginn.

Björninn er í 2. sæti með 16 stig, Skautafélag Akureyrar í því þriðja með 14 stig og Skautafélag Reykjavíkur rekur lestina með tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×