Skoðun

Erum við ekki að reyna að koma í veg fyrir andlegt ofbeldi?

Guðrún Kristín Magnúsdóttir skrifar
Ekki nota jólasveinana til að hegna eða umbuna í desember.

Íslensku jólasveinarnir gætu verið forfeður okkar í dulargervi. Að deyja í fjall er gamall siður/talsmáti. Þeir koma svo í heimsókn um vetrarsólhvörf, jólin. Matargjafir og forfeðradýrkun gætu hafa verið bannaðar á myrku öldunum, svo við sögðum þá hafa stolið bjúgum og skyri og ljósum. Ó ó! En við látum núna alveg ljós á leiði ættingja um jólin. Það er ekki bannað.

Bes, lítil jólavættur frá Egyptalandi, er síðan um 2000 árum fyrir rómverska núllið. Rauði búningurinn á Santa kemur svo frá kardínálum (húfan þó öðruvísi í laginu). Ég tel að okkar jólasveinar þurfi ekki að vera nein eftiröpun á þessu erlenda.

Okkar jólasveinar eru alls ekki að koma til byggða til að hygla þægum þýlyndum, og hegna þeim sem hafa sjálfstæðan vilja og skoðanir, þetta sem fullorðnir kalla: óþekkur.

Guðveldin nota gulrót og keyri, eða m.ö.o. umbun og hótun, með hlýðnikröfum. Og það eru til grimmar mömmur.

En góðir uppalendur þurfa ekkert á hegningunni að halda. Þeir gefa ást, kærleika og umhyggju. Kenna börnum að bera ábyrgð.

Ég hef séð lítil börn sem fá hráa kartöflu meðan systkinin fá sælgæti. Ég hef séð lítil börn sem fá ekki neitt í skóinn. Tilhlökkun og gleði breytist í vonbrigði, sorg, reiði, uppgjöf, niðurlægingu. Erum við ekki að reyna að koma í veg fyrir andlegt ofbeldi?

Er ekki hrá kartafla í skóinn andlegt kvalræði af hendi mömmunnar? Og í þokkabót að ljúga sig út úr óhæfuverkinu með því að kenna fagurri vætt tilhlökkunar og gleði um ódæðið. Hvernig getur nokkur mamma notað svona lágkúru? Við ættum að vernda börn slíkra mæðra. Ekki básúna hegningartól í fjölmiðlum, né á öðrum stöðum. Nei. Íslenskir jólasveinar séu ekki í kartöflunni.

Falleg er sagan af litlu telpunni sem var miklu þroskaðri andlega en mamman. Ljómandi af gleði sagði hún:

– Mamma sjáðu hvað jólasveinninn gaf mér! Viltu sjóða hana og gæta þess að hún ruglist ekki saman við venjulegu kartöflurnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×