Fótbolti

Entist aðeins eina æfingu eftir að hafa verið kallaður nasisti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roman Zozulya segist ekki vera nasisti eða hafa öfgafullar skoðanir.
Roman Zozulya segist ekki vera nasisti eða hafa öfgafullar skoðanir. vísir/getty
Úkraínski landsliðsmaðurinn Roman Zozulya hraktist frá spænska B-deildarliðinu Rayo Vallecano aðeins nokkrum klukkutímum eftir að hann var lánaður til þess frá Real Betis.

Stuðningsmenn Rayo mættu á fyrstu æfingu Zozulya með liðinu, vopnaðir borða sem á stóð að þetta væri ekki staður fyrir nasista.

Í opnu bréfi til stuðningsmanna Rayo þvertekur Zozulya fyrir að vera nasisti eða hafa öfgafullar skoðanir.

„Því miður kom upp misskilningur vegna greinar blaðamanns sem veit lítið um ástandið í mínu heimalandi og minn feril,“ skrifaði Zozulya.

„Ég var í bol með merki Úkraínu við komuna til Sevilla. Þessi umræddi blaðamaður greindi frá því að ég væri í bol með merki uppreisnarmanna, sem er öðruvísi en merki Úkraínu.“

Að sögn Zozulya báðu forráðamenn Betis um að greinin yrði fjærlægð, sem var gert. Blaðið áttaði sig á mistökum sínum og baðst afsökunar. Skaðinn var þó skeður.

Stuðningsmenn Rayo, sem er margir hverjir vinstri sinnaðir, voru ekki sannfærðir og mættu á fyrstu, og einu, æfingu Zozulya og kröfðust þess að hann færi frá félaginu.

Þeim varð að ósk sinni. Zozulya er nú í þeirri leiðinlegu stöðu að geta ekki spilað meira í vetur. Reglur á Spáni kveða á um að leikmaður geti ekki spilað með fleiri en tveimur liðum á sama tímabili. Zozulya mun þó æfa með Betis fram á vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×