Enski boltinn

Ensku liðin þegar búin að eyða 105 milljörðum í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester City þurfti að borga vel til að fá Raheem Sterling.
Manchester City þurfti að borga vel til að fá Raheem Sterling. Vísir/Getty
Það eru bara nokkrir dagar í að enska úrvalsdeildin fari aftur af stað og liðin í deildinni hafa verið dugleg að eyða peningum í nýja leikmenn í sumar til að koma sem best undirbúin fyrir nýtt tímabil.

Nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni hefst á laugardaginn kemur en félagsskiptaglugginn lokar þó ekki fyrr en 1. september.

Ensku liðin hafa þegar komist yfir 500 milljónir punda múrinn þrátt fyrir að enn séu fjórar vikur eftir af glugganum og ýmislegt enn í farvatninu ef marka má fréttir enskra fjölmiðla.

Ensku liðin eru þannig þegar búin að eyða 105 milljörðum íslenskra króna í leikmenn í sumar og það þarf ekki mörg stórkaup í viðbót svo að þau fari að ógna metinu sem var sett í fyrra.

Manchester City hefur eytt mestu í einn leikmenn en liðið borgaði Liverpool 44 milljónir punda fyrir Raheem Sterling.

Rob Wilson, sérfræðingur í fjármálum fótboltafélaga, segir í viðtali við BBC að það sé líklegt að metið falli því að liðin treysta á tekjur frá nýjum risa sjónvarpssamningi sem tekur gildi fyrir 2016-17 tímabilið.

Nýr sjónvarpssamningur fyrir Meistaradeildina er einnig að auka við tekjurnar sem liðin fá fyrir að komast í hana.

Ensku félögin eyddu 965 milljónum punda í báðum gluggunum á síðasta tímabili en Wilson sér fyrir að liðin bæti það með og fari jafnvel yfir milljarðinn á þessu leiktímabili.

Nýi sjónvarpssamningurinn er mun hærri en sá gamli eða upp á 5,136 milljarða punda fyrir þrjú ár í staðinn fyrir 3,018 milljarða punda í þeim gamla.

Botnlið deildarinnar fær því 99 milljónir punda fyrir árangur sinn en meistararnir fá meira en 150 milljónir punda í verðlaunafé og þá á eftir að bætast við aukapeningur sem liðin fá fyrir að vera í sérstökum sjónvarpsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×