Skoðun

Enn og aftur „í kjólinn fyrir jólin“

Þegar líða fer að jólum má gjarnan heyra eða sjá fyrirsagnir í fjölmiðlum á borð við „Í kjólinn fyrir jólin“. Þetta er frasi sem allar konur þekkja og sumar hverjar keppast mjög við að fara eftir honum, þ.e. að passa í ákveðna stærð af kjól til að vera fallegar og fínar um jólin. Hvert sem við horfum fá ungar stúlkur og konur þau skilaboð að þær eigi að vera grannar og fallegar því það muni veita þeim hamingju og velgengni. Oft er reynt að láta auglýsingarnar líta vel út og notað frægt og þekkt fólk til þess að kynna vöruna eða þjónustuna. Fallegar, unglegar og grannar konur eru oft notaðar á þennan hátt, til dæmis í kvennatímaritum, eða öðrum miðlum sem eru beinlínis ætlaðir konum. Þessar auglýsingar byggja innihald sitt á minnimáttarkennd lesandans, en í svona auglýsingum eru gjarnan ráðleggingar um hvernig konur geta bætt útlit sitt og þá um leið andlega líðan með hinum og þessum vörum. Þetta getur haft mikil áhrif á ungar stúlkur og konur, en mikilvægt er að huga að því að börn og unglingar eru viðkvæmur neytendahópur sem verða auðveldlega fyrir áhrifum frá auglýsingum. Auglýsingar sem leggja áherslu á yfirborðseinkenni og nota grannar og unglegar fyrirsætur til þess að gera vöruna/þjónustuna eftirsóknarverða, geta haft neikvæð áhrif á líkamsmynd kvenna og viðhorf þeirra til eigin þyngdar og útlits. Þess vegna þurfa auglýsendur (og fjölmiðlar) að gæta þess hvaða skilaboð þeir senda þegar þeir nota staðalímyndir í auglýsingum sínum. Fólk á stöðugt að vera í líkamsrækt, hugsa um útlitið, líta vel út og borða hollt og passa upp á aukakílóin, eða m.ö.o. t.d. að passa í kjólinn fyrir jólin. Svona umfjallanir draga ekki upp rétta mynd af heilbrigðum lífsstíl og spila án efa inn í þróun átröskunarsjúkdóma. Hjá flestum einstaklingum byrjar átröskun í kjölfar megrunar þar sem takmarkið er að losna við nokkur kíló. Desember erfiður Desembermánuður getur verið einstaklega erfiður fyrir suma aðila hvað varðar mat. Það eru jólaboð, konfekt og smákökur hér og þar, stórsteikur, ís og annar veislumatur á borðum landsmanna. Allt þetta át getur valdið fólki sem hefur verið að glíma við átröskunarsjúkdóma miklum kvíða. Sjálf hef ég glímt við átröskun og finnst enn í dag rosalega erfitt að vera í kringum allt þetta góðgæti í desember og það að heyra í fjölmiðlum áróður um að ég eigi að passa í kjólinn fyrir jólin hjálpar mér ekki að njóta alls hins góða við jólin. Að fenginni reynslu geta fjölmiðlar og svona auglýsingar haft mikil áhrif á líkamsmynd kvenna. Þeir geta ýtt undir líkamsónægju á meðal ungra stúlkna og kvenna og um leið haft áhrif á sjálfsmynd þeirra og líkamsmynd. Átröskunarsjúkdómar geta verið ein birtingarmynd líkamsóánægju á meðal kvenna. Margar konur sem hafa neikvæða líkamsmynd þróa með sér átröskunarsjúkdóma á borð við lystarstol og lotugræðgi. Þær konur sem eru með neikvæða líkamsmynd hafa slæma sjálfsmynd, lítið sjálfstraust, eru þunglyndar og almennt óánægðar með eigið útlit. Megrunariðnaður Heilmikill iðnaður er í kringum megrun. Fyrirtæki sem vinna í þessum iðnaði stóla á sífellda neyslu viðskiptavina sinna. Margir þeirra einstaklinga, sem byrja í megrun, ná sjaldan, þegar til lengri tíma er litið, að viðhalda þyngdartapi sínu. Það hjálpar þessum fyrirtækjum, sem horfa á megrun, að dafna, því fólk sem mistekst að grenna sig verður óánægt með líkama sinn og reynir áfram að finna nýjar leiðir til þess að grennast. Það eyðir þá oft miklum fjárhæðum í að prófa hina og þessa megrunarkúra í von um að grennast sem fyrst. Því má í raun fullyrða að þessi iðnaður lifi á óánægju fólks og því ekki óeðlilegt að hann reyni að ýta undir óöryggi fólks með eigin líkama til dæmis með því að birta myndir af grönnum einstaklingum í auglýsingum sínum og svo framvegis. Í janúar munu dynja yfir auglýsingarnar um að koma sér í flott og gott form á nýju ári. Reynum að loka á þessi skilaboð úr fjölmiðlum, reynum að njóta jólanna, laus við áhyggjur af að borða of mikið af hinu og þessu. Ekkert mataræði er fullkomið. Gullna reglan er að allt er gott í hófi og jólin eru bara einu sinni á ári. Þó svo ég fái mér nokkra konfektmola eða smákökur þarf það ekki að jafngilda því að ég hafi borðað þrjár rjómatertur. Munum bara að útlitið er ekki allt, þar er svo miklu meira í lífinu sem skiptir máli en útlit okkar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×