Skoðun

Enginn veit hvað átt hefur…

Kristjana Björg Sveinsdóttir skrifar
Eitt af því fáa sem stór hluti stjórnmálamanna hér á landi hefur getað sameinast um á síðustu árum er að skerða framhaldsskólanám um eitt ár. Sama er uppi á teningnum innan „atvinnulífsins“. Þeir sem eru á þessari skoðun eru ekki eyland, svipaðar hugmyndir hafa komið upp erlendis og í Þýskalandi var fyrir nokkrum árum gripið til aðgerða af svipuðu tagi. Þar var nám til stúdentsprófs víða stytt um eitt ár, niðurstaðan er hið svonefnda Turbo-Abi. Hér er þó rétt að slá þann varnagla að skipulagning náms í Þýskalandi er með talsvert öðrum hætti en hér á landi þannig að styttingin var í raun umtalsvert minni en sú sem stefnt er að hér og síðast en ekki síst þá tóku sum sambandsríkin þetta fyrirkomulag ekki upp og önnur buðu upp á valfrelsi þótt mikil stemning væri yfirleitt fyrir breytingunni.

Nú er hins vegar komið annað hljóð í strokkinn í Þýskalandi og er mörgum hætt að lítast á blikuna. Því er haldið fram að túrbóprófið búi nemendur ekki nægilega vel undir háskólanám og yfirferðin sé allt of hröð. Gagnrýni af þessu tagi hefur komið bæði frá háskólamönnum og almenningi og skoðanakönnun í fjórum fylkjum í Norður-Þýskalandi sýnir að um 80% kjósenda vilja hverfa aftur til gamla stúdentsprófsins. Og stjórnmálamenn leggja við hlustir. Í a.m.k. tveimur fylkjum Þýskalands, Bæjaralandi og Hessen, eru þeir í fúlustu alvöru farnir að ræða um að lengja námið aftur um eitt ár. Annars staðar, svo sem í Hamborg, hefur verið reynt að knýja á um breytingar með undirskriftum en það hefur ekki tekist enn og í Slésvík-Holstein er slík undirskriftasöfnun í gangi þegar þessi orð eru skrifuð.

Lausnin er sveigjanleiki

Helstu rök þeirra sem ekki vilja breyta eru þau að verra sé að umsteypa skólakerfinu á nokkurra ára fresti en að vera með gallað kerfi, nokkuð sem íslenskir stjórnmálamenn mættu leiða hugann að. Lausnin sem ýmsir þykjast sjá er að bjóða upp á sveigjanleika, nemendur geti hvort heldur þeir vilja tekið túrbóprófið eða hefðbundið nám.

Með því að skera niður nám til stúdentsprófs um eitt ár telur menntamálaráðherra sig vera að laga íslenska menntakerfið að því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Ef það er í raun markmiðið er þá ekki skynsamlegt að kanna hvað sé raunverulega á seyði í menntamálum þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við og læra af því sem þau eru að gera, bæði því sem vel er gert og ekki síður af mistökunum.

Þeim sem vilja kynna sér málið nánar er bent á eftirfarandi slóðir



http://g9jetzt.de>g9jetzt.de.

http://www.spiegel.de/schulspiegel/wissen/g9-initiative-in-hamburg-scheitert-abitur-am-gymnasium-weiter-nach-acht-jahren-a-996218.html




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×