Enski boltinn

Enginn byrjar 2016 betur en Rooney: Sjö mörk í sjö leikjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, byrjar árið 2016 frábærlega, en hann skoraði í gærkvöldi sjöunda markið sitt í sjöunda leiknum á nýju ári.

Rooney skoraði þriðja mark Manchester United í 3-0 sigri á Stoke á heimavelli í gær eftir laglegan undirbúning Juan Mata og Anthony Martial, en framherjinn hefur verið sjóðheitur það sem af er ári.

Það gekk ekki jafnvel hjá honum fyrir áramót þar sem Rooney skoraði aðeins tvö deildarmörk, eitt í Meistaradeildinni og þrjú í sama leiknum í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann var mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á fyrri hluta tímabilsins.

Nú er öldin önnur því enginn af sóknarmönnum ensku úrvalsdeildarinnar byrjar betur á nýju ári en Wayne Rooney sem er búinn að skora fimm mörk í fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni árið 2016 og tvö mörk í tveimur leikjum í enska bikarnum.

Gylfi Þór og Wayne Rooney þakka hvor öðrum fyrir leikinn á Old Trafford um daginn þar sem Gylfi skoraði.vísir/getty
Agüero og Kane heitir

Sergio Agüero, framherji Manchester City, fylgir fast á hæla Rooney með sex mörk í sex leikjum á nýju ári, en Argentínumaðurinn er búinn að skora fimm mörk í fimm leikjum í deildinni og eitt mark í eina bikarleiknum sem hann hefur spilað til þessa.

Harry Kane hefur einnig byrjað nýtt ár vel með Tottenham og er búin að skora fjögur mörk í fimm leikjum í deildinni og eitt mark í þremur leikjum í bikarnum sem gerir fimm mörk í sjö leikjum í heildina.

Jermaine Defoe er búinn að skora fimm mörk í fimm leikjum í deildinni, þó ekkert í síðustu þremur leikjum eftir að byrja árið með stæl. Hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Aston Villa á öðrum degi ársins og svo þrennu í 4-2 sigri á Swansea 13. janúar.

Heldur hefur hægst á leikmönnum eins og Romelu Lukaku hjá Everton (2 mörk í fimm leikjum) og Odion Ighalo hjá Watford (1 mark í sjö leikjum). Þeir voru báðir í miklu stuði fyrir áramót og eru í þriðja og fjórða sæti markalista ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán og fjórtán mörk.

Rooney skorar á móti Newcastle.vísir/getty
Alltaf yfir tuginn

En aftur að Wayne Rooney. Hann klifrar nú hægt og rólega upp markalistann í ensku úrvalsdeildinni og er í heildina búinn að skora sjö mörk. Hann deilir 12.-14. sætinu með Dele Alli hjá Tottenham og Marko Arnatauvic, leikmanni Stoke.

Rooney vantar nú aðeins þrjú mörk til að komast í tuginn og halda þannig ótrúlegum árangri sínum gangandi með því að skora yfir tíu mörk á hverju tímabili fyrir Manchester United.

Rooney hefur aldrei á sínum ellefu ára ferli með Manchester United skorað færri en ellefu mörk og getur með þremur mörkum til viðbótar farið yfir tuginn tólfta tímabilið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×