Innlent

Engin kona í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Forsætisráðherra segir að ef að menn vilji sjá jafnara hlutfall kynja í nefndum þá þurfi að breyta fyrirkomulaginu á því hvernig kosið er í nefndir. Engin kona situr í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.

Konur eru í minnihluta í öllu nefndum Alþingis nema tveimur eftir að skipað var í nefndir þingsins í fyrradag. Kynjahlutföll eru ólík eftir málaflokkum en á meðan að engin kona situr í efnahags- og viðskiptanefnd sitja átta konur í velferðarnefnd og einn karl. Þetta hefur verið gagnrýnt nokkuð. Í jafnréttislögum segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins og sveitarfélaga skuli gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og að hlutur hvors kyns sé ekki minni en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða.

Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sagði í hádegisfréttum okkar í gær að óeðlilegt væri að Alþingi setji reglur um kynjahlutföll í nefndum og ráðum en hlíti þeim ekki sjálft. Svo virðist sem engar reglur gildi um skiptingu kynja í þingnefndir og það sé mjög undarlegt að hennar mati. Núna séu um 60% þingmanna karlmenn en 40% konur og því afsaki ekkert þá skiptingu sé í nefndir þingsins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir þetta ekki í fyrsta sinn sem að kynjaskipting í nefndir þingsins er ójöfn.

„Auðvitað er miklu skemmtilegra að það sé góð blanda af fólki með ólíkar skoðanir, úr ólíkum áttum og af sitt hvoru kyni. En vegna þess hvernig kosið er í nefndir eða réttara sagt raðað á listana, það gerir það hver flokkur út af fyrir sig, þá getur þetta orðið niðurstaðan og er svo sem ekki í fyrsta skipti. Við höfum séð svipaða hluti gerast áður. Ef að menn vilja huga sérstaklega að því að það sé ákveðið hlutfall kynja í hverri nefnd fyrir sig þá munu menn þurfa að breyta þessu fyrirkomulagi,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×