Enski boltinn

Endurkomusigur hjá Aroni sem lagði upp mark með löngu innkasti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er með eitruð innköst.
Aron Einar Gunnarsson er með eitruð innköst. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, og félagar hans í Cardiff unnu flottan endurkomusigur gegn Derby á útivelli í ensku B-deildinni í kvöld, 4-3.

Aron Einar var eins og alltaf í byrjunarliði Cardiff sem lenti 2-0 undir eftir 17 mínútur en velska liðið var komið 3-2 yfir á 57. mínútu. Aron Einar lagði upp 2-2 markið með löngu innkasti.

Darren Bent jafnaði þá metin á 74. mínútu og gerði sig líklegan til að tryggja Derby eitt stig en Joe Ralls tryggði Cardiff sigurinn, 4-3, með marki úr vítaspyrnu á 90. mínútu.

Cardiff er búið að vinna tvo leiki í röð og þrjá af síðustu fjórum en það lyfti sér upp í tólfta sæti deildarinnar með sigrinum í kvöld.

Ragnar Sigurðsson var óvænt kominn aftur í byrjunarlið Fulham sem vann mikilvægan 3-2 sigur gegn Nottingham Forest á útivelli, 3-2. Sigurmarkið var sjálfsmark gestanna á 72. mínútu.

Ragnar var ekki búinn að koma við sögu hjá Fulham síðan 2. janúar en í síðustu sex leikjum var hann fjórum sinnum ónotaður varamaður og tvisvar sinnum ekki í leikmannahópnum. Miðvörðurinn öflugi var aftur á móti tekinn af velli á 28. mínútu.

Hörður Björgvin Magnússon var ekki í leikmannahópi Bristol City fjórða leikinn í röð en liðið tapaði 2-1 fyrir Leeds. Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Úlfanna sem töpuðu 1-0 á heimavelli gegn Wigan.

Úlfarnir eru í 18. sæti með 35 stig en Bristol gengur ekkert þessa dagana. Liðið er í 20. sæti með 32 stig og er aðeins búið að vinna einn af síðustu sex leikjum sínum.

Birkir Bjarnason var svo kominn á bekkinn hjá Aston Villa eftir að byrja þrjá fyrstu leikina eftir komu sína til félagsins. Hann kom inn á sem varamaður á 73. mínútu fyrir Alan Hutton í 3-1 tapi Villa gegn Barnsley.

Aston Villa er ekki búið að vinna leik á þessu ári en það er búið að tapa sex af sjö og fá aðeins eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×