Skoðun

Endurhæfingarbætur

Úrsúla Jünemann skrifar
Enginn óskar sér að verða alvarlega veikur og óvinnufær. En lífið getur tekið óvænta stefnu þannig að framtíðarplön raskast verulega eða verða að engu.

Nú er vitað að veikindi hafa áhrif á líkama og sál. Sú staðreynd að geta ekki verið til gagns í samfélaginu finnst flestum slæmt og lítillækkandi. Og sálræna vanlíðanin hefur auðvitað áhrif á bata almennt. Auk þess eru það áhyggjur af fjármálunum. Læknis- og lyfjakostnaður er jú ekki ókeypis.

Nú komum við að bótakerfinu hér á landi. Óvinnufær sjúklingur á rétt á svonefndum endurhæfingarbótum frá Tryggingastofnun. Þessar bætur eru ekki neitt til þess að hrópa húrra fyrir og duga engan veginn til framfærslu hvað þá að borga allan aukakostnað vegna veikinda. Og svo kemur „rúsínan í pylsuendanum“: Sjúklingur sem fær slíkar bætur má ekki vinna sér inn eina einustu krónu án þess að verði dregið frá bótunum.

En hvað felst í orðinu „endurhæfing“? Er það ekki að gera einstakling aftur hæfan til að lifa eðlilegu lífi? Gera honum kleift að öðlast starfsgetu smátt og smátt upp á nýtt og halda þannig reisn og sjálfsvirðingu? Hvar er hvatningin til að reyna að koma sér á vinnumarkaðinn á ný þó það væri ekki nema með 5–10 prósent starfi? Hvar er endurhæfingin ef menn fá spark í rassinn fyrir að reyna að vera pínulítið virkir á meðan á veikindum stendur? Jú, að vísu „má“ sjúklingurinn vinna, en fyrstu 150.000 kr. yrðu faktískt kauplaust því bæturnar detta þá út. Þetta væri kannski valkostur fyrir lykilstjórnanda í banka með ofurlaun en ekki fyrir venjulegan launþega.

Okkar bótakerfi er meingallað og mannskemmandi og þarfnast endurskoðunar.

Ég vildi gjarnan heyra núna í aðdraganda kosninganna hvað stjórnmálaflokkarnir ætla að gera til að laga til í þessum málum. Aldraðir, öryrkjar og sjúklingar eiga margfalt betra skilið en það sem bótakerfið okkar býður upp á.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×