Innlent

Ellefu þúsund skrifað undir

Fiskveiðar.
Fiskveiðar.
Alls hafa ellefu þúsund manns skrifað undir áskorun til Alþingis um að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjöld.

Undirskriftarlistann má finna á netinu. Skömmu fyrir klukkan átta í morgun höfðu rúmlega 2.500 manns skrifað undir áskorunina, það er því óhætt að segja að viðtökur hafi verið góðar.

Á heimasíðu undirskriftasöfnunarinnar segir að verði Alþingi ekki við ósk þeirra sem undir skrifa, verði undirskriftalistinn afhentur Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taki til breytinga á lögum um veiðigjöld frá 26. júní 2012, heldur vísi þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði, til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.

Hart hefur verið deilt um frumvarpið en það á að skila íslenska ríkinu 9,8 milljörðum á næsta fiskveiðiári, sem hefst í september.

Sú upphæð gæti hins vegar lækkað.  Raunveruleg upphæð gæti því orðið nær 8,3 milljörðum þar sem skuldsettar útgerðir hafa fengið afslátt af sérstaka veiðigjaldinu.

Sá afsláttur verður áfram í boði á næsta fiskveiðiári.

Nái frumvarpið fram að ganga verða veiðigjöldin talsvert lægri en til stóð því áætlað hefur verið að veiðigjöld myndu skila 13,8 milljörðum á næsta fiskveiðiári og síðan hækka ár frá ári til fiskveiðiársins 2016 til 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×