Innlent

Eldur kom upp í garðyrkjstöð í Hveragerði

Samúel Karl Ólason skrifar
Hveragerði.
Hveragerði. Vísir/Vilhelm
Eldur kviknaði í garðyrkjustöð í Hveragerði skömmu fyrir miðnætti á laugardaginn. Engan sakaði og tjón liggur ekki fyrir, en ljóst er að ræktunartjón hefur orðið, samkvæmt Brunavörnum Árnessýslu. Framleiðsla á matvöru fer fram í gróðurhúsinu þar sem eldurinn kom upp.

Eldurinn var staðbundinn á ræktunarborði í gróðurhúsinu en húsið fylltist af reyk. Útlit er fyrir að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnsbúnaði í borðinu.

Þegar slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu mættu á staðinn var lögregluþjónn, sem einnig er slökkviliðsmaður, búinn að slökkva eldinn með slökkvitæki. Húsið var svo reykræst og afhent lögreglu formlega svo hægt sé að rannsaka eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×