Innlent

Eldheimar opna eftir tvær vikur

Freyr Bjarnason skrifar
Safnið verður opnað í Vestmannaeyjum eftir um tvær vikur.
Safnið verður opnað í Vestmannaeyjum eftir um tvær vikur. Mynd/Óskar Pétur Friðriksson
Gosminjasafnið Eldheimar í Vestmannaeyjum verður opnað 23. maí og eru iðnaðarmenn þessa dagana að leggja lokahönd á húsnæðið. Fullt miðaverð er 1.900 krónur en fyrstu helgina fá heimamenn frítt inn.

Bæði innlendir og erlendir hópar hafa boðað komu sína á safnið, þar á meðal Danir og Þjóðverjar. Í júní munu norrænir ráðherrar á vegum velferðarráðuneytisins einnig koma í heimsókn. „Norðurlöndin voru betri en enginn fyrir okkur í gosinu og hugsuðu um okkur þegar illa stóð á sínum tíma,“ segir Kristín Jóhannesdóttir, sem hefur verið viðloðandi Eldheima frá byrjun. „Ég er rosalega ánægð með safnið og verð ánægðari með hverjum deginum sem ég kem þangað.“

Eldheimar kosta um níu hundruð milljónir króna. „Það kostar peninga að búa til peninga. Við ætlum okkur að þetta verði mikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu og það er stefnt að því að safnið skili tekjum,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×