Innlent

Ekki upplausn í ríkisstjórninni vegna pistils fjármálaráðherra

Benedikt Bóas skrifar
Bjarni Benediktsson segir að sveiflurnar á gengi krónunnar hafi verið eðlilegar í ljósi mikils hagvaxtar. Fjármálaráðherra vill marka leið stöðugleika þar sem hagsmunir almennings og fyrirtækja fara saman.
Bjarni Benediktsson segir að sveiflurnar á gengi krónunnar hafi verið eðlilegar í ljósi mikils hagvaxtar. Fjármálaráðherra vill marka leið stöðugleika þar sem hagsmunir almennings og fyrirtækja fara saman. vísir/eyþór
„Það er engin upplausn í ríkisstjórninni. Stefna hennar er alveg skýr hvað þetta snertir,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra um grein Benedikts Jóhannessonar sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

„Mér finnst mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar að skipta út gjaldmiðlinum. Það er alveg skýrt,“ segir Bjarni en hann er staddur í Hollandi þar sem hann ætlar að hvetja íslenska kvennalandsliðið í fótbolta til dáða.

Grein Benedikts hét einfaldlega Má fjármálaráðherra hafna krónunni? Þar sagði hann að krónan væri hemill á heilbrigð viðskipti. Þá sagði hann að fjármálaráðherra bæri skylda til að leggja til þann kost sem farsælastur væri fyrir Íslendinga.

Bjarni segir að stjórnmálaflokkurinn sem Benedikt leiðir, Viðreisn, hafi talað um að það væri skynsamlegt að skipta út gjaldmiðlinum.

„Stjórnarsamstarfið kveður á um annað og það er alveg skýrt, segir forsætisráðherra.

„Við höfum verið að vinna að endurbótum á ramma peningamála í landinu. Það er að störfum nefnd sem sett var af stað, einmitt undir þeim formerkjum að krónan yrði okkar gjaldmiðill,“ segir Bjarni.

Að sögn Bjarna má segja um sveiflurnar á gengi krónunnar að þær hafi verið eðlilegar í ljósi þess mikla hagvaxtar sem hafi verið hér og sé langt umfram það sem sé að gerast í kringum okkur.

„Að því leytinu til hefur krónan verið að þjóna sínu hlutverki vel. Hún hefur verið að styrkjast í samræmi við stórauknar útflutningstekjur.“

Bjarni bendir á að Seðlabankinn hafi metið það svo að Ísland sé nálægt jafnvægisraungengi, það er að segja að þjóðarbúskapurinn standi ágætlega undir því gengi sem landinn býr við.

„Það er augljóst að sumar útflutningsgreinar finna fyrir því að gengið styrkist jafn hratt og raun ber vitni. En það er líka til merkis um að það hefur gengið vel í þessum greinum. Það má ekki gleyma hvað þetta hefur haft áhrif á kaupmátt almennings og haldið verðbólgu lágri,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×