Innlent

Ekki ólíklegt að makríllinn hafi áhrif á hrefnuna

BBI skrifar
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, telur ekki ólíklegt að makrílstofninn geti haft áhrif á hrefnugengd við landið. Makríll í íslenskri lögsögu hefur aukist mjög á síðustu árum en hann nærist meðal annars á sandsílum þó rannsóknir okkar síðustu árin bendi til þess að krabbasvifdýr sé mikilvægasta fæða hans hér við land. Hrefnur nærast sömuleiðis á sandsílum og því ekki ólíklegt að stofnarnir lendi í ákveðinni samkeppni um næringu. „En hvaða áhrif það hefur á hvernig gengur að sjá hrefnur við landið veit ég ekki," segir Jóhann.

Í liðinni viku veltu menn fyrir sér hvort makríllinn væri að hafa slæm áhrif á hrefnur við landið. Í fréttum Vísis í gær kom fram að hvalaskoðunarmenn hefðu meiri áhyggjur af hrefnuveiðum heldur en makrílgöngunni við landið.

Jóhann vill ekkert fullyrða um hvort hafi meiri áhrif, makríllinn eða hrefnuveiðar. „Það liggja ekki fyrir neinar rannsóknir eða gögn sem bera þetta sérstaklega saman," segir hann. Hann veit ekki til þess að neitt bendi sérstaklega til þess að hrefnuveiðar hafi slæm áhrif á hvalaskoðun. Hann segir hrefnustofninn á svæðinu svo stóran að litlu breyti þó veitt séu „örfá dýr úr honum“. Hann minnir einnig á rannsóknir sem sýnt hafa að hrefnur sækja alltaf á sama staðinn á hverju ári, jafnvel þó afkvæmi þeirra eða foreldrar hafi verið veidd á sama stað. „Svo það bendir ekkert til að veiðar hafi nein varanleg áhrif á hegðun hrefnunnar," segir Jóhann.


Tengdar fréttir

Stefnir í metsumar í hvalaskoðun

Það stefnir í metsumar í ár hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu sem gerir út frá Reykjavíkurhöfn. Sé bara horft á sumarið er útlit fyrir 20% aukningu frá því í fyrra. Sé veturinn tekinn með í reikninginn blasir við 40-50% aukning en veturinn var sérlega góður í ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×