Innlent

Ekkert bólar á símtalinu fræga

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fjárlaganefnd Alþingis hefur enn ekki fengið afrit af símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, um risa lánveitingu til Kaupþings árið 2008. Formaður nefndarinnar er ósáttur við þá töf sem orðið hefur í málinu.

Seðlabanki Íslands lýsti því yfir í síðasta mánuði að hann sé tilbúinn að leyfa fjárlaganefnd Alþingis að lesa afrit af símtali Davíðs og Geirs varðandi 500 milljóna evra lánveitingu til Kaupþings í október 2008.

Nefndarmenn verða þó bundnir þagnarskyldu og mega ekki greina opinberlega frá því sem kemur fram í samtalinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum er bankinn ekki kominn með heimild til að afhenda nefndarmönnum þessi gögn.

Formaður Fjárlaganefndar segir mikilvægt að nefndin fái þessi gögn til að hægt sé að skila alþingi skýrslu um hvernig staðið var að lánveitingunni.

„við erum mjög ásótt við það. þetta er búið að taka ár - það var mars í fyrra sem við byrjuðum á þessu máli. það er búið að taka allan þennan tíma að fá þessar upplýsingar og kryfja þetta mál til mergjar - hvernig á þessu stóð, hvers vegna lánið var veitt og hverjir tóku þá ákvörðun. auðvitað erum við ósátt við það. þingið á ekkert að láta bjóða sér það," segir Björn Valur Gíslason formaður fjárlaganefndar.

Lán Seðlabankans til Kaupþings var veitt gegn veði í danska bankanum FIH. Bankastjórn seðlabankans samþykkti hins vegar ekki lánveitinguna formlega.

„Þingið á rétt á þessum upplýsingum og við öll. þetta voru risa upphæðir sem fóru þarna út. þetta er eitt af stóru hrunamálunum og við eigum ekki að sætta okkur við það að vita ekki hvernig í því máli liggur," segir Björn Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×