Innlent

Einungis stjórnsýslan færist til Bjarna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Benedikt Jóhannesson segir öll málefni Seðlabankans er lúta að daglegri starfsemi hans heyra enn undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Benedikt Jóhannesson segir öll málefni Seðlabankans er lúta að daglegri starfsemi hans heyra enn undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. vísir/stefán
„Það eru bara hin stjórnsýslulegu málefni Seðlabankans sem færast milli ráðuneyta en ekki hin daglegu málefni,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Eins og greint hefur verið frá var samið um það í síðustu stjórnarmyndun að málefni Seðlabankans myndu flytjast frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið.

Benedikt var spurður út í málið á opnum fundi hjá Viðreisn í fyrradag. Hann segir að málefni sem snerta afnám hafta, fjármálastefnuna og sölu eigna og því um líkt verði eftir í fjármálaráðuneytinu. Mótun efnahagsstefnunnar verði eftir í ráðuneyti hans.

„Það er eiginlega bara hin stjórnsýslulega umgjörð Seðlabankans sem færist til forsætisráðherra. Hvað getur það þýtt? Það getur til dæmis þýtt það að ef laga­umgjörð Seðlabankans er breytt þá er það forsætisráðherra sem ber fram lagafrumvarpið en ekki fjármálaráðherrann. En svona frá degi til dags er þetta ekki mikil breyting fyrir starfsmenn ráðuneytisins.“

Benedikt var spurður hvers vegna málefni Seðlabankans hafi verið færð á milli ráðuneyta en svaraði því ekki beint. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×