Skoðun

Einn daginn berst bréf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Draumur hins níu ára gamla albanska Petrit rættist á mánudagsmorgun. Hann og systur hans fengu að fara í skóla. Það er með ólíkindum að ekkert hafi bent til þess að Petrit, Laura og Janie fengu sjálfsagða ósk sína uppfyllta. Ef ekki hefði verið fyrir hugrakka foreldra sem sögðu Fréttablaðinu sögu sína væru börnin líklega enn að láta sér leiðast í galtómri íbúð.

Ég efast ekki um að börnin í Laugarnes- og Laugalækjarskóla munu taka vel á móti nýju skólafélögum sínum. Sömuleiðis hafa fjölmargir borgarbúar sýnt vilja í verki og aðstoðað fjölskylduna að koma undir sig fótunum. Hins vegar er alls óvíst hve lengi börnin verða velkomin á Íslandi enda hefur ekki verið tekin afstaða til beiðni fjölskyldunnar um hæli.

Afstaða Íslands til Dyflinnarreglugerðarinnar virðist vera sú að það sé skylda fyrir okkur að senda hælisleitendur aftur til næsta Schengen-ríkis, ekki að við höfum heimild til þess. Á meðan stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um að verja tveimur milljörðum króna í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur næstu tvö árin stefnir í að vel liðnir Nígeríumenn, sem líta á Ísland sem sitt heimili, verði sendir úr landi á næstunni.

Petrit litli vakti föður sinn með látum á mánudaginn og vildi drífa sig í skólann klukkan 6:30. Vafalítið var brosið á andliti hans ekki minna þá um morguninn en það var í lok dags eftir faðmlög skólafélaga. „Það er allt miklu betra núna. Ég eignast vini og leik við þá. Svo læri ég líka,“ sagði Petrit í sérstaklega fallegri kvöldfrétt Stöðvar 2. Það er sorglegt að hugsa til þess að einn daginn gæti beðið hans bréf í póstkassanum frá íslenskum yfirvöldum þess efnis að hans nærveru sé ekki lengur óskað.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×