Innlent

Einar K Guðfinnsson talinn líklegasti kandídatinn

Jakob Bjarnar og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Fastlega er búist við því að Einar K. Guðfinnsson verði nýr ráðherra, ef ekki hann, þá Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Fastlega er búist við því að Einar K. Guðfinnsson verði nýr ráðherra, ef ekki hann, þá Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á Bessastöðum klukkan 13 á morgun. Fastlega er búist við því að við það tækifæri verði gengið frá ráðherraskiptum, en eins og komið hefur fram hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra boðað afsögn sína. Þá hefur verið boðað til þingflokksfundar Sjálfstæðisflokksins í fyrramálið og þá gera menn fastlega ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, muni gera grein fyrir því hver verður nýr ráðherra flokksins í ríkisstjórn.

Samkvæmt heimildum Vísis gera menn innan flokksins fastlega ráð fyrir því að Einar K. Guðfinnsson muni taka við af Hönnu Birnu. Komið hefur fram að Einar vilji gjarnan vera áfram sem forseti þingsins sem er í raun veigameiri staða en ráðherradómur. Þannig er það í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. En talið er víst að ef Bjarni fer fram á það við Einar að hann gangi í ríkisstjórnina, þá muni Einar verða við því. Það fylgir sögunni að talið er víst að sú niðurstaða muni teljast ásættanlegust fyrir flokksmenn, en staðan er afar flókin eins og fram kom í vikunni þegar Vísir reyndi að rýna í stöðuna. Þar var meðal annars nefndur sá möguleiki að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gengju inn í ríkisstjórnina, að iðnaðarráðuneytinu yrði skipt upp, en ekki mun tími til að ganga frá lausum endum sem í því felast. Ekki í þessari atrennu.

Bjarni hefur rætt við þingmenn í vikunni og heyrt álit þeirra. Hið furðulega er að ekkert hefur spurst um hver verður fyrir valinu. Ef Einar verður ekki nýr ráðherra er talið víst að formaðurinn muni eiga erfitt með að ganga fram hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformanni.

Ef þessi verður niðurstaðan þá breytir það ekki því að ýmsir lausir endar eru útistandandi; hver tekur við af Einari sem forseti þingsins? Ef það verður Ragnheiður þá þarf að finna út úr því hver tekur við af henni sem þingflokksformaður? Þá er spurt: Hvað Hanna Birna vill? Ganga þarf frá því og menn skulu ekki gleyma, í þessu samhengi, að hún er varaformaður flokksins.

„Þetta er hausverkur Bjarna. Hann verður að finna út úr þessu,“ segir einn heimildarmaður Vísis úr kjarna Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Hanna Birna farin til útlanda

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er starfandi innanríkisráðherra næstu daga.

Ráðherrakapall Bjarna gengur illa upp

Formaður Sjálfstæðisflokksins glímir nú við þá vandasömu þraut að stilla upp ráðherraliði sínu – sem er hægara sagt en gert.

Hanna Birna átti ekki annan kost

Engum á að koma á óvart að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi ákveðið að hætta að gegna embætti innanríkisráðherra. Það hefur blasað við um nokkurn tíma. Allt frá fyrsta degi lekamálsins hefur vandi hennar aukist og að því kom að hún viðurkenndi ósigur sinn. Loksins, segja margir.

Vilja Unni Brá sem innanríkisráðherra

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum skora á Bjarna Benediktsson að skipa Unni Brá Konráðsdóttur sem innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×