Fótbolti

Ein súpersókn og Kólumbía tók bronsið | Sjáðu sigurmarkið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Bacca fagnar sigurmarki sínu.
Carlos Bacca fagnar sigurmarki sínu. Vísir/Getty
Kólumbíumenn tryggðu sér bronsverðlaunin í Ameríkukeppninni eftir 1-0 sigur á Bandaríkjamönnum í leiknum um þriðja sætið í nótt.

Bandaríska liðið stóð sig mun betur en í 4-0 tapi á móti Argentínu í undanúrslitunum eða í 2-0 tapi í fyrri leik þjóðanna í riðlakeppninni.

Carlos Bacca, leikmaður AC Milan á Ítalíu, skoraði eina mark leiksins á 31. mínútu þegar hann batt endahnútinn á frábæra sókn kólumbíska liðsins.

Juan Cuadrado fékk boltann út á kanti, sendi hann á James fyrir framan teiginn sem lyfti honum á Santiago Arias sem hafði stungið sér inn á vítateiginn. Santiago Arias skallaði boltann framhjá markverðinum og Carlos Bacca ýtti honum inn fyrir línuna.

Frábær sókn og hún nægði til þess að tryggja Kólumbíumönnum bronsið og besta árangur liðsins í Ameríkukeppninni frá því að Kólumbía vann titilinn á heimavelli árið 2001.

Þetta var líka langþráð mark enda náðu Kólumbíumenn ekki að skora í átta liða úrslitunum eða undanúrslitunum.  Þegar Carlos Bacca kom boltanum yfir í marklínuna þá var kólumbíska liðið ekki búið að skora í 228 mínútur í keppninni.

Bandaríkjamenn fengu vissulega færin til að þess að jafna metin. David Ospina varði frábæra aukaspyrnu frá Clint Dempsey í upphafi seinni hálfleik og Bobby Wood var líka nálægt því að skora.

Í uppbótartíma fóru tvö rauð spjöld á loft; eitt á hvort lið, en Michael Orozco var rekinn af velli í uppbótartíma eftir að hafa fengið fyrra gula spjaldið sitt á 88. mínútu. Santiago Arias fékk svo gul spjöld í uppbótartíma hjá Kólumbíu og fór því einnig snemma í sturtu.

Það er hægt að sjá þessa súpersókn Kólumbíumanna sem færði þeim bronsið hér fyrir neðan.

Úrslitaleikur Argentínu og Síle fer fram í kvöld og verður í beinni á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst á miðnætti.

Sigurmark Carlos Bacca



Fleiri fréttir

Sjá meira


×