Skoðun

Ég er heimsforeldri

Ólafur Darri Ólafsson skrifar
Þegar eldri dóttir mín var yngri veiktist hún það illa að ég þurfti að fara með hana á Læknavaktina. Sem betur fer var hún ekki alvarlega veik og braggaðist fljótt.

Mér varð hugsað til þessa í tengslum við nýlega heimsókn mína til Madagaskar. Fyrir foreldra þar í landi geta hósti barns, niðurgangur eða hiti verið upphafseinkenni á hættulegum sjúkdómum sem takmarkaður aðgangur að heilsugæslu og útbreidd vannæring gera síðan enn hættulegri.

Ég var staddur á Madagaskar til að kynna mér baráttuna sem heimsforeldrar UNICEF styrkja í hverjum mánuði. Ég heimsótti meðal annars tvö sjúkrahús þar sem UNICEF útvegar lyf og þjálfar starfsfólk. Það var magnað að sjá hvað hægt var að afreka við erfiðar aðstæður og takmarkaðan tækjakost. Ég varð einnig vitni að því hvernig lítil heilsugæslustöð úti á landi getur skipt sköpum fyrir börnin í fátæku þorpunum í kring. Mér gafst tækifæri á að hitta konur sem vinna sem sjálfboðaliðar og fylgjast skipulega með börnunum í þorpinu sínu. Þær eru fyrsta varnarlínan í baráttunni gegn vannæringu og fá fræðslu og þjálfun frá UNICEF.

Ég hitti sömuleiðis ungar stúlkur – börn – sem sjá fyrir fátækum fjölskyldum sínum með vændi. Ég verð að viðurkenna að það var sérstaklega átakanleg upplifun. Ljósið í myrkrinu er að UNICEF gerir allt sem hægt er til að hjálpa þeim út úr þessum ömurlegu aðstæðum.

Í dag er dagur rauða nefsins. Hann gengur út á að gleðja landsmenn og hvetja þá til að gleðja börn um allan heim með því að gerast heimsforeldrar UNICEF.

Ég trúi því að öll börn eigi rétt á að lifa og þroskast, óhult fyrir ofbeldi og misnotkun. Ég trúi því líka að það sé sameiginlegt verkefni okkar allra að gæta barna heimsins. Að berjast fyrir réttindum þeirra. Sem heimsforeldri tilheyri ég hópi sem deilir þessari sannfæringu og það þykir mér vænt um.

Dagur rauða nefsins nær hámarki í kvöld í skemmti- og söfnunarþætti á RÚV. Ég hvet öll þau sem eiga þess kost að horfa á þáttinn og gerast heimsforeldrar. Trúið mér, framlag ykkar hjálpar börnum um allan heim.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×