Innlent

Ég er engin senditík

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson ásamt Gesti Jónssyni sem sýslumaður náði hreinlega ekki í þrátt fyrir að til stóð að frysta eignir Jóns.
Jón Ásgeir Jóhannesson ásamt Gesti Jónssyni sem sýslumaður náði hreinlega ekki í þrátt fyrir að til stóð að frysta eignir Jóns.

Sýslumaðurinn í Reykjavík átti í töluverðum erfiðleikum með að ná í lögmann Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Gest Jónsson, til að tilkynna fyrirtöku á kyrrsetningarbeiðninni á eignum Jóns. Honum reyndist ekki unnt að fá farsímanúmer Gests uppgefið og vildi lögmaður sem starfar með Gesti ekki koma boðunum áfram, þar sem hann væri engin senditík fyrir sýslumann eins og samstarfsmaðurinn orðaði það.

Eignir Jóns Ásgeirs Jóhannessonar voru kyrrsettar síðustu mánaðarmót. Í þinglýstum gögnum af kyrrsetningarbeiðninni sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að lenti sýslumaðurinn í töluverðum vandræðum að ná sambandi við lögmann Jóns Ásgeirs, Gest Jónsson.

Samskiptunum er lýst í gögnunum. Sýslumaðurinn hafði símasamband við lögmannsstofu Gests þann 29. apríl. Var honum þá tjáð af ritara lögmannsstofunnar að Gestur væri erlendis.

Sýslumaður útskýrði þá efni málsins fyrir ritaranum og að fyrirtaka myndi eiga sér stað stað daginn eftir. Óskaði hann jafnframt eftir því að fá samband við þann lögmann sem gæti tekið við af Gesti.

Sýslumaður fékk þá samband við Gísla Hall sem kvaðst ekki sjá um mál Jóns Ásgeirs. Sýslumaður bað þá Gísla um að farsímanúmer Gests en Gísli kvaðst ekki vita númerið og vildi ekki útvega það.

Þegar sýslumaður spurði Gísla hvort hann gæti sjálfur haft samband við Gest og upplýst hann um að fyrirtaka kyrrsetningar færi fram daginn eftir svaraði Gísli því til að hann væri engin senditík fyrir sýslumann. Sýslumaður kveðst þá hafa kvatt Gísla kurteislega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×