Innlent

Eftirspurn eftir Bjartri framtíð

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Það er greinileg eftirspurn eftir Bjarti framtíð,“ segir stjórnarformaður flokksins. Allt bendir til þess að flokkurinn verði í meirihluta í þremur stærstu bæjarfélögum landsins. Lektor í sagnfræði líkir góðu gengi Bjartar framtíðar við uppgang Kvennalistans fyrir þremur áratugum.

Björt framtíð bauð fram í níu sveitarfélögum í sveitarstjórnarkosningunum í ár og náði inn manni í sjö þeirra. Í gær var kynntur meirihluti Sjálfstæðisflokks og Bjartar framtíðar í Kópavogi. Búist er við því að sömu flokkar myndi meirihluta á næstu dögum í Hafnarfirði og Björt framtíð er einnig í meirihlutaviðræðum í Reykjavík ásamt Samfylkingu, Pírutum og Vinstri grænum.

Það kemur Heiðu Kristínu Helgadóttur, stjórnarformanni Bjartrar framtíðar ekki á óvart að flokkurinn hafi fengið góða kosningu víða um land. „Það hefur verið eftirspurn eftir nýrri tegund af stjórnmálum og ég tel okkur vera mjög nútímalegan flokk sem beitir nútímalegum aðferðum til að ná árangri. Það er að sýna sig að það er eftirspurn eftir því,“ segir Heiða Kristín.

Akranes er fjórða sveitarfélagið þar sem Björt framtíð er í meirihlutaviðræðum og því allt eins líklegt að Björt framtíð verði í meirihluta í fjórum af níu stærstu sveitarfélögum landsins. Hvaða þýðingu hefur það fyrir Bjarta framtíð.

„Þetta breikkar okkur töluvert og setur okkur á annan stað en við höfum verið á. Við höfum verið óskilgreint afl fyrir mörgum en erum að stimpla okkur inn með afgerandi hætti. Nú reynir á að standa undir væntingum næstu fjögur árin,“ segir Heiða Kristín.

Lakari kjörsókn skaðar Bjarta framtíð

Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir margt líkt með góðu gengi Bjartar framtíðar og uppgangi Kvennalistans sem varð að öflugu stjórnmálaafli fyrir þremur áratugum.

„Það er ýmislegt í stuttri sögu Bjartar framtíðar sem minnir á kvennaframboð og Kvennalistann á sínum tíma. Kvennaframboðið varð til fyrst sem framboð til sveitarstjórnarkosninga á Akureyri og í Reykjavík árið 1982. Þau framboð náðu góðum árangri. Upp úr því var Kvennalistinn stofnaður sem bauð síðan fram til Alþingis árið 1983,“ segir Ragnheiður.

Kvennalistinn starfaði á Alþingi allt til ársins 1998 að flokkur rann inn í Samfylkinguna. Að mati Ragnheiðar þarf Björt framtíð að móta sér sérstöðu í pólitísku litrófi til að festa sig í sessi í íslenskum stjórnmálum.

„Björt framtíð þarf að tryggja að hún hafi áfram sérstöðu. Björt framtíð verður til úr góðum árangri besta flokksins í Reykjavík, sem minnir á kvennaframboðin. Það er spurning hvað gerist núna í framhaldinu og hvort flokkurinn nær að skapa sér áframhaldandi sérstöðu,“ segir Ragnheiður.

Hún telur lakari kjörsókn einnig geta haft áhrif á stöðu Bjartar framtíðar. „Það er mikið áhyggjuefni ef að kosningaþátttakan heldur áfram að dvína vegna þess að Björt framtíð vill sækja fylgi til fólks sem margt bendir til að sé ekki að mæta á kjörstað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×