Innlent

Eftirlýstar unnu þyrluferð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég var að segja við stelpurnar áðan að þetta væri sennilega eina skiptið sem við fáum eitthvað fyrir að láta pota í píkurnar á okkur. En það er fínt, mjög fínt,“ segir hin hressa Bergljót Halla Kristjánsdóttir, ein þeirra sem vann þyrluferð í happdrætti Krabbameinsfélags Íslands.

Hún, ásamt fjórum öðrum eldhressum konum, svöruðu á dögunum kalli Krabbameinsfélagsins sem lýst hefur eftir þeim konum sem ekki höfðu mætt í leghálsskoðun, en yfirskrift leitarinnar er „Hvar eru týndu konurnar?“. Þær gáfu sig því fram á leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð síðastliðinn fimmtudag sem virðist heldur betur hafa borgað sig þar sem þær unnu útsýnisflug með þyrluþjónustunni Reykjavík Helicopters.

Áverknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélegs Íslands er enn í fullum gangi og hafa fjölmargir lagt fyrirtækinu lið. Reykjavík helicopters og Krabbameinsfélagið gerðu með sér samstarfssamning en hluti ágóða fyrirtækisins mun renna til söfnunarinnar.

Þyrla fyrirtækisins er bleik að lit og skreytt bleiku slaufunni og boðið hefur verið upp á „bleikar útsýnisferðir“ í þessum mánuði.

„Í október í fyrra sátum við á kaffistofunni og sáum bleika strætóa og allt í bleiku alls staðar. Við fengum þessa hugmynd þá en vorum þá orðnir of seinir. Við ákváðum því að geyma þetta sem leyndarmál og stóðum við það,“ segir Friðgeir Guðjónsson, sölu- og markaðsstjóri Reykjavík helicopters.

„Við leituðum til LogoFlex sem sérhæfa sig í verkefnum sem þessum sem mættu með fimm menn og að baki liggja um 60-70 klukkustundir í vinnu. Við erum svo ánægðir með þetta að það getur vel verið að við látum bara mála þyrluna svona,“ bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×