Innlent

Eftirfylgni með ADHD sjúklingum ábótavant á Íslandi

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands stóð fyrir rannsókninni.
Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands stóð fyrir rannsókninni.
Meðferðartími við ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) meðal fullorðinna á Íslandi er umtalsvert styttri en í nágrannalöndunum og gefur það vísbendingar um að eftirfylgni með ADHD-sjúklingum sé ábótavant, samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust nýverið í vísindatímaritinu Basic & Clinical Pharmology and Toxicology.

Að rannsókninni stóð Drífa Pálín Geirsdóttir, meistaranemi í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, í samstarfi við leiðbeinanda sinn Helgu Zoëga, dósent í lýðheilsuvísindum,  lækna og vísindamenn við Landspítala – háskólasjúkrahús og Háskólann í Óðinsvéum.

Rannsóknin sýnir einnig að notkun lyfja gegn ADHD meðal fullorðinna fjórfaldaðist á Íslandi á árunum 2003 til 2012.

Í rannsókninni var sjónum beint að ávísun lyfja við ADHD meðal allra Íslendinga eldri en 18 ára á árunum 2003 til 2012.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heildarfjöldi tilfella á Íslandi, þar sem lyfjum við ADHD var ávísað, jókst úr nærri þremur í rúm tólf á hverja 1000 íbúa á árunum 2003-2012.

Fjölgun tilfella reyndist mest meðal fólks á aldrinum 19-24 ára, en fjöldi kvenna á þessum aldri sem leysti út ávísun fór úr tæpum tveimur í nærri 18  á hverjar 1000 konur og fjöldi karla úr nærri þremur í 24 á hverja 1000 karlmenn á sama aldri.

Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós að einu ári eftir að meðferð hófst höfðu 57 prósent fullorðinna á aldrinum 19-24 ára hætt lyfjameðferð við ADHD en 43 prósent þeirra sem voru á aldrinum 25-49 ára.

Þremur árum eftir upphaf meðferðar reyndust aðeins 12 prósent fólks í yngri aldurshópnum enn í meðferð og um fjórðungur hinna eldri.

Það allnokkuð lægra hlutfall en rannsóknir í bæði Danmörku og Svíþjóð hafa sýnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×