Skoðun

Eftir höfðinu dansa síbrotamennirnir

Ragnar H. Hall skrifar
Sl. fimmtudag var Svavar Halldórsson, fréttamaður á RÚV, dæmdur til að greiða Jóni Ásgeiri Jóhannessyni miskabætur fyrir ærumeiðingar. Í svokallaðri frétt hafði hann brigslað Jóni um refsiverða háttsemi sem hann gat ekki fært fram nein gögn um að hann hefði gerst sekur um. Þetta var í annað sinn á tæpu ári sem fréttamaðurinn fær sams konar dóm í Hæstarétti, þar sem jafnframt er komist að niðurstöðu um að hann hafi ekki farið eftir reglum sem útvarpsstjóri hefur sett um vinnubrögð á fréttastofu RÚV. Viðbrögðin komu ekki á óvartViðbrögð Svavars við dóminum þurfa ekki að koma á óvart – þau eru hin sömu og í fyrra skiptið. Hann endurtekur ærumeiðingarnar og gefur lítið fyrir niðurstöður Hæstaréttar, úr því að þær eru honum ekki að skapi. Hann lýsir glaðhlakkalegur yfir að dómarnir muni í engu hafa áhrif á vinnubrögð sín í framtíðinni. Í fræðunum eru þetta kölluð dæmigerð viðbrögð síbrotamannsins. Viðbrögð RÚV við dóminum eru hins vegar athyglisverð – þessi hlutlausa ríkisstofnun stendur með sínum manni, hér eftir sem hingað til, og fréttastjórinn lýsir yfir í fjölmiðlum að stofnunin muni sjá til þess að hann beri ekki fjárhagslegan skaða af málinu. Með öðrum orðum fær Svavar Halldórsson að fremja ærumeiðingar, hér eftir sem hingað til, á kostnað skattborgaranna sem eru skyldaðir til að greiða fyrir þjónustuna með nefskatti. RÚV skammast sín ekkiHversu oft höfum við heyrt fréttamenn hneykslast á öðrum sem hafa misstigið sig og spyrja þá hvort ekki sé rétt að þeir segi af sér? RÚV skammast sín ekki fyrir frumhlaup fréttamanna sinna, heldur sér til þess að þeir sjálfir beri ekki skaða af. Velþóknun stjórnenda RÚV gagnvart framgöngu Svavars Halldórssonar skín í gegn þegar viðbrögð þeirra við niðurstöðu Hæstaréttar er skoðuð. Höfundur er lögmaður og flutti umrætt mál af hálfu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.



Skoðun

Sjá meira


×