Innlent

Efla þarf atvinnulíf í tæknigeiranum og skoða stöðu kvenna á atvinnumarkaði

Bjarki Ármannsson skrifar
Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir á fundinum í dag.
Helgi Hjörvar, Árni Páll Árnason og Katrín Júlíusdóttir á fundinum í dag. Mynd/Samfylkingin
Efla þarf fjölbreytt atvinnulíf um land allt, meðal annars með skattaafsláttum vegna fjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, eflingu verk- og tæknináms og aukinni nýfjárfestingu í tækni- og hugveitingageiranum. Þetta er meðal þess sem segir í áherslum Samfylkingarinnar fyrir komandi þingvetur, en þær voru kynntar á fundi í dag.

Flokkurinn leggur sem áður segir talsverða áherslu á betra starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í tækni- og hugverkageiranum og segir að höft og veikur gjaldmiðill skapi hættu á bólum og einhæfni í atvinnulífi.

Þá vilja Samfylkingarmenn að félags- og húsnæðismálaráðherra verði falið að flytja skýrslu um stöðu kvenna á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi kvenna er meira er karla hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar. Svara þurfi því hvort launamunur kynjanna sé að aukast eða minnka í einstökum hópum og hvaða áhrif aðgerðir ríkisins í atvinnu- og markaðsmálum á síðustu árum hafi haft á stöðu kynjanna.

Þá vill flokkurinn að sjávarbyggðir fái hlutdeild í veiðigjaldi, byggðastofnun verði tryggður byggðakvóti og að ferðamönnum verði betur dreift um landið, svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×