Fótbolti

Ef Neymar mætti velja einn leikmann úr Real Madrid væri það ekki Ronaldo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Já, svona er þetta bara.
Já, svona er þetta bara. vísir/getty
Cristiano Ronaldo vann Gullboltann í vikunni í fjórða sinn á ferlinum. Hann er ríkjandi Evrópumeistari með Real Madrid og Portúgal og verður líklega kjörinn besti fótboltamaður heims eftir áramót.

Hann er samt ekki sá leikmaður í Real Madrid sem Neymar, leikmaður Barcelona, myndi velja úr Madrídarliðinu ef hann fengi að taka einn yfir til Katalóníu.

Brassinn myndi heldur ekki velja hina tvo meðlimi BBC-þríeykisins; Gareth Bale og Karim Benzema. Sá maður sem hann langar að vera með í liði er samherji hans í brasilíska landsliðinu, Marcelo.

„Ég myndi velja Marcelo. Af hverju? Því hann er vinur minn. Ég myndi ekki einu sinni taka Ronaldo úr Real Madrid fram yfir hann. Marcelo er maðurinn sem ég myndi velja,“ segir Neymar í viðtali við CNN.

Fjölmiðlar hafa gert mikið úr samkeppni framherjatríóanna í stórliðum spænska boltans; MSN (Messi, Suárez, Neymar) hjá Barcelona og BBC (Benzema, Bale, Cristiano Ronaldo) hjá Real Madrid. Neymar ber mikla virðingu fyrir kollegum sínum hjá Real og fer því fínt í að segja að hann og sínir félagar eru betri.

„Ég vil ekki vera að segja hvort þríeykið mér finnst betra því ég er ekki þannig. Ég myndi aldrei segja að ég væri betri en næsti maður. Tríóið okkar er samt að endurskrifa söguna og mun halda áfram að gera það,“ segir Neymar.

„Cristiano Ronaldo er búinn að vinna Gullboltann fjórum sinnum, Bale er að spila vel og Benzema er frábær framherji sem mér finnst vera ofurstjarna. Þetta eru allt stjörnur sem á að virða,“ segir Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×