Skoðun

EF kláfferjuferðir upp á Esjuna

Sigþór Magnússon skrifar
Þau láta ekki alltaf mikið yfir sér ef-in sem við setjum fram í umræðunni. Þegar upp er staðið eru það þó þau sem gera oft gæfumuninn. Magnús Skarphéðinsson skrifaði litla grein í Fréttablaðið, „Auðvitað kláfferjuferðir upp á Esjuna“. Þar rómar hann hugmyndir um kláfferju, að því er virðist án þess að hafa kynnt sér málið vel. Sem betur fer lætur hann efasemdir sínar í ljós: „ef vel væri að verkefninu staðið, og verðinu yrði stillt í hóf“.

En það er ekki vel að verkinu staðið og náttúran er ekki að njóta vafans frekar en hvalirnir forðum og þá dugðu okkur ekki rökin að stilla veiðum í hóf. Borgin er heldur ekki að fara að standa að þessari framkvæmd, hún er að gera einkaaðilum kleift að eigna sér hluta af Esjunni til að ryðja í hana 40 til 50 m breiða braut með 37-45 m háum möstrum. (Á heimasíðu sinni segir Landsnet m.a. um Fljótsdalslínu: „Snjóflóðamöstrin eru engin smásmíð en meðalhæð þeirra er í kringum 30 metrar“ og þykir þeim nóg um.) Til glöggvunar má einnig nefna að Garðskagaviti er 28,6 m hár. Það á ekki bara að gera þessa braut heldur leggja sjö metra breiðan veg upp í mitt fjall og reisa 1.000 til 1.500 m2 byggingu í upphafsstöð sem væri allt að 15 m há, 800 til 1.000 m2 byggingu á Rauðhól sem er 470 m yfir sjávarmáli sem einnig gæti verið 15 m há og síðan 300 til 500?m2 byggingu uppi á topp Esjunnar.

Glöggur maður eins og Magnús hlýtur að átta sig á að kláfferja sem á að taka allt að 80 manns og er á stærð við stærstu strætisvagna veldur umhverfisáhrifum margfalt á við það „þegar nýjar biðstöðvar eru settar upp“ hjá Strætó. Magnús bendir á að við höfum vítin til að varast einkaframkvæmdir á náttúruperlum. Hann bendir á Bláa lónið en einnig má benda á Þríhnjúkagíg þar sem aðgangseyrir er 42 þúsund krónur á mann. Dýr væri sú fjölskylduferð.

Þetta mál snýst ekki um útsýni eða aðgengi að útsýni. Það eru ótal leiðir til að sjá yfir Reykjavíkursvæðið hvort sem er ofan af Úlfarsfelli, úr Hallgrímskirkjuturni, af svölum Perlunnar eða af Bláfjöllum eins og Ómar Ragnarsson hefur bent á. Þetta mál snýst um stjórnsýslu borgarinnar og náttúruvernd. Er eitthvað að marka loforð og áætlanir um Grænan trefil ef græðgi og skammsýni fær forgang þrátt fyrir viðvarnir frá öllum umsagnaraðilum í borgarkerfinu og stofnunum ríkisins?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×