Innlent

Dýrara að nota íslenskan sand

Norðfirðingar létu haustkulið ekki aftra sér frá því að spila strandblak á stuttbuxum fyrr í vikunni.
Norðfirðingar létu haustkulið ekki aftra sér frá því að spila strandblak á stuttbuxum fyrr í vikunni.
Búið er að koma upp strandblakvelli í Neskaupstað með innfluttum sandi frá Póllandi. Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, formaður blakdeildarinnar í Neskaupstað, segir að mun dýrara hafi verið að flytja sand frá Suðurlandi sökum þess að flutningurinn frá Póllandi var ókeypis.

„Það er fínn sandur bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka en flutningurinn er svo dýr,“ segir Þorbjörg. Kostnaðurinn við völlinn í heild er rúmar tvær milljónir króna.

Þorbjörg segir völlinn mikinn gleðigjafa fyrir íbúa svæðisins og býst við því að hann verði mikið notaður næsta sumar.

„Þetta er svo flott staðsetning, rétt við tjaldsvæðið, þannig að völlurinn mun nýtast ferðafólki sem og heimamönnum,“ segir hún. Í nóvember verða haldnir dagar myrkurs í Neskaupstað og stendur þá til að vera með rökkurblak á vellinum.

„Sólin hverfur hérna í nóvember og við fáum ekki að sjá hana aftur fyrr en í febrúar, þannig að við ætlum að koma upp kyndlum og hafa skemmtilega stemningu hérna í myrkrinu,“ segir Þorbjörg. Hluti Íslandsmótaraðarinnar í strandblaki verður haldinn á vellinum næsta sumar.- sv


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×