Fótbolti

Di María tryggði níunda sigurinn í röð með níunda markinu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ángel Di María.
Ángel Di María. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Ángel Di María tryggði Paris Saint-Germain níunda deildarsigurinn í röð í kvöld og þar með 24 stiga forystu á toppi frönsku deildarinnar.

Paris Saint-Germain vann 2-1 útisigur á Olympique Marseille en Marseille hafði ekki tapað deildarleik síðan í byrjun nóvember. Paris Saint-Germain hefur enn ekki tapað deildarleik á tímabilinu en liðið er með 22 sigra og 3 jafntefli í 25 leikjum.

Ángel Di María hefur skorað 9 deildarmörk í 19 leikjum á sínu fyrsta tímabili með Paris Saint-Germain.

Di María skoraði sigurmarkið á 71. mínútu eftir undirbúnings Svíans Zlatan Ibrahimović.

Zlatan Ibrahimović hafði sjálfur komið PSG í 1-o strax á þriðju mínútu leiksins. Parísarliðið var þó bara með forystu í 23 mínútur því Rémy Cabella jafnaði fyrir á 26. mínútu.

Zlatan Ibrahimović er langmarkahæstur í frönsku deildinni með 21 mark í 20 leikjum en hann hefur einnig gefið 8 stoðsendingar.

Paris Saint-Germain er með 24 stigum meira en Monakó sem er í örðu sætinu. Það eru þrettán umferðir eftir og 39 stig eftir í pottinum. Paris Saint-Germain ætti því að geta tryggt sér fjórða titilinn í röð í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×