Skoðun

Dekrið við skrumið

Gunnlaugur Stefánsson skrifar
Umhverfispólitíkin á Íslandi getur oft verið skrýtin, sérstaklega sú sem sprettur upp af skrifborðum í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum fóru sérfræðingar að boða hrun í gæsastofninum og kvað svo rammt að boðskapnum, að málið var tekið upp á Alþingi og töldu sumir þingmenn þess vegna koma til greina að banna skotveiðar á gæs. Þetta kom okkur, sem deilum kjörum með fuglum, fiskum og dýrum, í opna skjöldu, því fjölgun gæsarinnar væri meiri en góðu hófi gegndi með óhjákvæmilegum ágangi og skaða fyrir gróðurfar landsins.

Síðar kom í ljós, að allt var þetta á misskilningi byggt. Gæsin væri talin á vetrarbeit í Skotlandi, en stórir hópar höfðu „villst“ á leiðinni og sest að yfir veturinn í Noregi og ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum villum í talningunni. Engum datt í hug að spyrja fólkið í dreifðum byggðum sem deilir kjörum með gæsinni.

Nú hefur sprottið upp af skrifborðum á þurrkasvæðunum í Reykjavík sérstök þrá til að vernda vaðfugla og þá kemur ekkert annað til greina en að skapa votlendi með því að fylla skurði til sveita með mold og möl. Ekki hefur enn verið sérstaklega tilgreint hver á að borga, en líklega ekki hugmyndasmiðir úr sínum sjóðum. Samt vekur athygli, að í einustu mýrinni í Reykjavík keppast menn við að þurrka upp í stríði við vaðfuglana, byggja hvert mannvirkið af öðru í Vatnsmýrinni, svo örugglega verði ekki eitt einasta blautt strá að finna í reykvískri mold.

En það er ekki skortur á votlendi sem ógnar fyrst og fremst lífi vaðfuglanna, heldur refur og minkur. Svo boða margir, sem fylla vilja skurðina, að friða ref og tala um, að minkurinn sé sætur og samofinn fegurðinni í íslenskri náttúru og þurfi því sína vernd. Ekkert ógnar fremur fuglalífinu í landinu en vargurinn og þar vega þyngst refur og minkur. Nú er svo komið að rjúpan flykkist hingað heim að mínum bæ og verpir hér allt um kring, af því að enginn friður er fyrir varginum til fjalla.

Vilji fólk elska fuglalífið, þá er árangursríkast að útrýma mink og halda ref í skefjum með markvissum veiðum um allt land. En þannig umhverfispólitík fellur ekki að dekrinu við skrumið sem elskar frekar skýrslur um hugmyndir, en raunhæfar aðgerðir í samstarfi við heimafólk sem þekkir til aðstæðna og kann til verka.

Skrifborðsástin á fuglalífinu

Ástin á fuglalífinu við skrifborðin í Reykjavík birtist í margs konar útrás. Ef byggja á brú við árósa, þá stendur ekki á fjármunum til þess að meta umhverfisáhrifin fyrir fuglalífið. Hver reykvísk sendinefndin af annarri kemur á vettvang, telur og mælir, skrifar og metur, svo skýrslurnar hlaðast upp. Þetta horfðum við, heimafólkið, upp á þegar vegur og brú voru byggð við árósa Breiðdalsár á Meleyri árið 1994. En eftir að framkvæmdum lauk missti stjórnsýslan ástina á fuglalífinu, enda hafa engar rannsóknir farið fram á því hvernig fuglunum reiðir af við nýju brúna. En það skynjum við, sem búum í nágrenni við brúna, að fuglalífið blómstrar einmitt þar, því þar finnur fuglinn öryggi við umferðina fyrir varginum, sérstaklega ref og mink. Þannig er brúin hina bestu náttúruvernd.

Skrifborðsástin í Reykjavík á fuglalífinu er samt ekki sannfærð um það. Árum seinna var undirbúið að byggja brú yfir botn Berufjarðar. Fyrirhugað brúarstæði var svo dæmt óboðlegt fyrir fuglalífið og seinkaði þar með lagningu slitlags á síðasta hluta hringleiðar um landið um nokkur ár. Nú loksins er komin niðurstaða í það mál og ekki við öðru að búast en að fuglalífið eigi von á góðu skjóli við brúna, blómstri og dafni, þó það verði ekki skráð í skýrslum á reykvískum skrifborðum.

En ef fylla á fjörð af grút vegna risalaxeldis í líkingu við skolpfrárennsli frá 150 þúsund manna borg með óafturkræfum skaða fyrir lífríkið, fugla og fiska, og um síðir fyrir mannlífið líka, þá stendur ekki á ókeypis leyfisveitingum frá skrifborðum í Reykjavík. Það þykir fínt um þessar mundir að dekra við skrumið í umhverfismálum á Íslandi.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×