Innlent

Deilan um Kerið: Ágætur gjörningur sem vakti athygli á vandamálinu

„Það vantar heildstæða stefnu í þessum málum," segir Sigurdór Sigurðsson, framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins, Allra handa, í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag.

Þar var hann spurður út í sjónarmið Óskars Magnússonar og annarra eiganda að Kerinu sem hafa bannað stærri rútufyrirtækjum að koma með hóp af ferðamönnum að skoða Kerið, þar sem ágangur er mikill og fyrirtækin greiða ekki fyrir aðganginn.

Eins og greint hefur verið frá, þá var forsætisráðherra Kína og fylgdarliði, ásamt ráðherrum frá Íslandi, bannað að koma að skoða Kerið um helgina og þótti ákvörðunin umdeild. Sigurdór er þó ekkert sérstaklega ósáttur við ákvörðunina þar sem hún hefur vakið athygli á þessu umdeilda máli.

„Að því leytinu til var þetta ágætur gjörningur," segir Sigurdór sem þykir í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að rukka farþega fyrir að skoða staði eins og Kerið. Hann segir það þó nauðsynlegt að það sama gangi yfir alla, þannig ætti slík gjaldtaka ekki að einskorðast við fyrirtæki að hans mati, heldur alla. Einstaklingum er enn frjálst að skoða Kerið án þess að greiða fyrir það og segir Sigurdór að þarna þurfi að móta heildræna stefnu.

„Við erum ekki samkeppnisfærir ef sumum fyrirtækjum er gert að greiða gjald en minni fyrirtækjum ekki," bendir Sigurdór á. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×