Innlent

Deila um ljósastaur við Fiskikónginn

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Ljósastaurastríð er hafið á Sogavegi. Fiskbúðareigandi vill að borgin færi ljósastaur sem viðskiptavinir hans keyra stöðugt á en fær þau svör að hann verði þá að borga brúsann. Borgin segir staurinn vera hluta af samræmdri heildarlýsingu götunnar.

Við bílaplan Fiskikóngsins á Sogavegi í Reykjavík stendur ljósastaur einn sem kastljósinu hefur nú verið varpað á. Staurinn er á slæmum stað við planið og fellur vel inn í umhverfið svo viðskiptavinir fiskbúðarinnar keyra oft á hann.

„Það gerist í hverri einustu viku. Ég er búinn að vera hérna í tæplega fimm ár svo það er örugglega búið að bakka á þennan staur um 250 sinnum að minnsta kosti," segir fiskikóngurinn Kristján Berg og bætir við að engin slys hafi orðið á fólki en mikið tjón á bifreiðum.

Reykjavíkurborg á staurinn og hefur Kristján óskað eftir því við borgina að hann verði fjarlægður eða færður en það hefur hlotið dræmar undirtektir.

„Þeir vilja að sá sem að sækir um að færa staurinn borgi og þá yrði það sennilega ég en hvers vegna á ég að borga fyrir að færa ljósastaur? Þetta er staur sem búinn að valda hér milljónatjóni fyrir borgarbúa og fólk jafnvel hætt að versla hér því staurinn er fyrir.  Það er ekkert mál að færa staurinn, bara drífa sig út og moka," segir Kristján.

Hann hefur óskað eftir því að fá að mála staurinn í áberandi lit svo hann sjáist betur eða setja grindverk utan um hann en má það ekki því staurinn er eign borgarinnar.

Þegar haft var samband við Reykjavíkurborg fengust þær upplýsingar að borgin hafi óskað eftir því við lóðarhafa að hann skipuleggi sína lóð áður en aðhafst verði frekar í málinu. Staurinn hafi staðið þarna áratugum saman og sé hluti af samræmdri heildarlýsingu götunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×