Enski boltinn

De Bruyne: Kompany sannfærði mig um að koma til Man City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
De Bruyne var úthlutað treyju númer 17 hjá Man City.
De Bruyne var úthlutað treyju númer 17 hjá Man City. mynd/facebook-síða man city
Kevin De Bruyne, nýjasti liðsmaður Manchester City, segir að Vincent Kompany hafi sannfært sig um að ganga til liðs við félagið.

City gekk frá kaupunum á De Bruyne í gær en Belginn kostaði heilar 54 milljónir punda. Hann er dýrasti leikmaður í sögu City.

De Bruyne átti frábært tímabil með Wolfsburg í fyrra, varð bikarmeistari og lagði upp 20 mörk í þýsku úrvalsdeildinni, flest allra leikmanna.

„Ég sé tækifæri til að vinna titla með svona hæfileikaríkum hópi leikmanna,“ sagði De Bruyne.

„Ég átti frábæran tíma í Þýskalandi og við unnum nokkra titla. Vonandi get ég bætt mig sem leikmann og gert góða hluti fyrir City.“

Kompany, fyrirliði City, átti að sögn De Bruyne sinn þátt í að fá hann til Manchester-liðsins.

„Hann hringdi nokkrum sinnum í mig og við töluðum saman,“ sagði De Bruyne en þeir Kompany þekkjast vel úr belgíska landsliðinu.

„Hann sagði að ég væri í góðum höndum hjá City og að það yrði vel hugsað um mig.

„Það er alltaf fínt að hafa einhverja sem maður þekkir. Við Kompany þekkjumst mjög vel. Hann getur hjálpað mér að aðlagast.“

De Bruyne þekkir aðeins til ensku úrvalsdeildarinnar en hann lék þrjá leiki með Chelsea haustið 2013.

De Bruyne gæti leikið sinn fyrsta leik með City þegar liðið sækir Crystal Palace heim eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×