Skoðun

Dalvíkurbyggð „Indland eða Ísland“?

Níels Sveinsson skrifar
Þann 18. mars síðastliðinn var haldinn í Félagsheimilinu Árskógi kynningarfundur vegna áhuga sænskra aðila að byggja og reka skipaniðurrifsstöð norðan við Hauganes.

Fundurinn var að mínu mati mjög áhugaverður, kynningarnar fræðandi og þar komu fram mismunandi sjónarmið og áhugaverðar spurningar.

Þann 22. mars rakst ég svo á grein sem er titluð: Dalvík, Indland norðursins, sem var birt á Vísi þann 21.3.2015, skrifaða af Hauki R. Haukssyni, kennara við Tækniskólann. Ég held það sé ekki orðum aukið að Haukur virkar mótfallinn hugmyndinni. Persónulega finnst mér þó of mikið um stóryrði, rangfærslur og hræðsluáróður í hans skrifum. Kem betur inn á það síðar.

Þetta er stórt mál fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar og rekstur okkar litla sveitarfélags. Því þarf það að skoðast  frá öllum sjónarhornum og umræðan verður að byggjast á staðreyndum, frekar en skoðunum byggðum á tilfinningum. Ég tek það skýrt fram að ég er hvorki með eða á móti þessari framkvæmd, ennþá. Þetta yrði stórt fyrirtæki staðsett í litlu sveitarfélagi og ég tel að okkur beri skylda til að skoða allar hliðar málsins í fullri alvöru, án fordóma eða gífuryrða. Að því loknu má taka upplýsta ákvörðun um af eða á.

Fimmtudaginn 19. mars hitti ég fólkið á bakvið hugmyndina í spjalli - mín tilraun til að fá aðeins ítarlegri upplýsingar um hvers eðlis þessi rekstur yrði. Til glöggvunar langar mig að byrja á nokkrum staðreyndum um hvernig rekstur er að ræða, eins og ég skil þetta, bæði eftir kynningarfundinn og mitt spjall við umrætt fólk.

Í grófum dráttum þá verður þeim skipum, sem á að rífa, siglt undir eigin vélarafli til stöðvarinnar, allt hreinsað innan úr þeim og svo skipsskrokkurinn klipptur niður í búta með stálklippum sem festar eru á og drifnar af stórum, rafdrifnum gröfum.

Stærð þeirra búta ræðst af kröfum viðskiptavinarins. Einnig á að gera upp þá hluti sem hægt er að selja sem varahluti; rafmótora, glussakerfi, ljósavélar og aðalvélar sem dæmi. Alla þessa hluti á að gera upp á staðnum. Öllum spilliefnum verður komið fyrir í gámum og þeim fargað eftir réttum leiðum, erlendis. Um þennan rekstur verður stofnað íslenskt félag, með höfuðstöðvar á Íslandi.

Þetta er mjög einfölduð mynd af stóru fyrirtæki, enda er hugmyndin á upphafsreit hvað okkar sveitarfélag varðar.

Núna langar mig aðeins að fjalla um greinina hans Hauks. Hluti þeirra stóru orða er síst til þess fallinn að aðstoða fólk við að mynda sér upplýsta skoðun á því fyrirtæki sem um ræðir. Haukur lýsir því sem svo að hvergi í Evrópu sé fólk svo vitlaust að leyfa svona rekstur. “Sprengja kletta, steypa plön og viðlegukanta og girða af svæðið. Reisa svo eldspúandi bræðsluverksmiðju með tilheyrandi sjónmengun, hávaða og brennsluilmi er leggur yfir nágrennið”.

Til að byrja með held ég að gáfnafar okkar Íslendinga sé ekki það versta innan Evrópu. Bara alls ekki. Að sprengja kletta, steypa plön og viðlegukanta og girða af svæðið er alls ekki neikvætt í eðli sínu. Það er oft á tíðum nauðsynlegur og eðlilegur hluti margra stórra framkvæmda. Að girða af svæði þar sem stórar vinnuvélar eru að störfum er mjög eðlileg öryggisráðstöfun sem þarfnast ekki frekari skýringa við. Hvaðan hans upplýsingar um “eldspúandi bræðsluverksmiðju með tilheyrandi sjónmengun, hávaða og brennsluilmi” koma væri fróðlegt að vita. Hvergi var minnst á slíkt í kynningunni og því síður í mínu spjalli við fólkið á bakvið fyrirtækið. Þvert á móti á að klippa skipin niður í bita með stórum klippum sem, eins og áður sagði, eru festar á stórar, rafdrifnar gröfur.

Haukur skrifar: “Lofað er 100 – 120 láglaunastörfum”. Fleiri virðast deila þessari skoðun Hauks. Á kynningarfundinum í Árskógi kom maður í pontu og spurði fundargesti hvort þetta væru störfin sem við vildum að börnin okkar og barnabörn ynnu. Hann uppskar nokkurt lófaklapp fyrir.

Spurningin er kannski eðlileg og lýsir ákveðinni umhyggju, bæði fyrir sveitarfélaginu okkar og fólkinu sem þar býr. Ekkert okkar vill eigin barni annað en það besta, eðlilega. En þó mætti sennilega líka snúa þessari spurningu við og spyrja: Eru börnin okkar öll í vinnu sem þau langar að vinna? Eða: Eru börnin okkar með þá valkosti í vinnu sem er bæði hollt og gott að hafa?  

En nóg um spurninguna sem slíka, ég þykist vita að meiningin er góð. Spurningin snýr í raun að öllum þeim störfum sem fyrirtækið getur boðið. Er ekki full djúpt á árina tekið? Væntanlega verður notast við réttindamenn á gröfurnar. Trúlega eru nokkrir aðilar í Dalvíkurbyggð sem misstu ekki svefn þó börn þeirra fetuðu þá slóð og mætti þar nefna: Kötlu, Dalverk, Steypustöðina og án efa fleiri fyrirtæki. Ætli það sé ekki vænlegt að notast við vélvirkja, vélstjóra, rafvirkja og bifvélavirkja þegar kemur að því að gera upp vélar, mótora og glussakerfi? Þar gæti verið tækifæri fyrir Elektro Co, Vélvirkja, BHS og fleiri. Lítið til að skammast sín fyrir þar. Verandi m.a. rafvirki vil ég ekki móðga það fólk sem raunverulega vinnur á lágmarkstöxtum og kalla mitt starf, eða störf annarra iðngreina, láglaunastörf. Því finnst mér of auðvelt að túlka þessa fullyrðingu hans Hauks sem vafasöm skilaboð til nemenda við Tækniskólann, skóla atvinnulífsins. Í raun allra iðnnema í þessum greinum, óháð skólum.

Einhver þarf að selja það stál sem fellur til. Ekki er mikill markaður fyrir slíkt stál á Íslandi svo væntanlega verður það allt selt erlendis. Sölumenn þessa fyrirtækis verða þá í miklum samskiptum við erlenda aðila og þar sem þetta eru frekar sérhæfð viðskipti má ætla að töluverða sérþekkingu þurfi til. Eðlileg ágiskun er að iðn- eða háskólamenntun gæti komið að gagni við slík störf. Þar sem ég er með bæði iðn- og háskólamenntun yrði ég því fylgjandi að þess háttar störfum fjölgi innan sveitarfélagsins. Hvort þetta er rétta fyrirtækið í þeim efnum á hinsvegar eftir að koma í ljós. Það ber að skoða með opnum huga og án fordóma.

Það kom fram á kynningarfundinum að eitthvað verður líka um verkamannastörf sem þá væntanlega flokkast sem láglaunastörf. Ég held reyndar að flest, ef ekki öll, fyrirtæki á Íslandi, sem telja 100 starfsmenn eða fleiri, hafi láglaunastörf innan sinna dyra. Hvort þau verða hlutfallslega fleiri hjá þessu fyrirtæki eða ekki hef ég ekki hugmynd um. Það væntanlega skýrist við nánari skoðun.

Það sem mig langaði að benda á er að störfin sem fylgja svona fyrirtæki eru fjölbreytileg og væntanlega ekki þess eðlis að starfsmenn þurfi að skammast sín fyrir sína vinnu. Þetta sveitarfélag var byggt upp að stóru leyti í kringum fiskveiðar. Óhjákvæmilegur fylgifiskur útgerða er að skip þeirra úreldast. Erum við það mikil konungsþjóð að við getum ekki komið að þeim þætti ferilsins?

Sanngjörn spurning getur verið: Er ekki betra að skip verði klippt niður á ábyrgan hátt á Íslandi frekar en siglt upp í sandfjöru í Asíu, brennd þar í búta og spilliefnin urðuð í sandinn eins og var fullyrt um að reyndin væri í dag?

Haukur skrifaði: “Ef Dalvíkurbyggð ætlar að bjóða gestum og gangandi upp á slíka sjónmengun, loftmengun, hávaða og reykspúandi bræðsluverksmiðju og hér um ræðir, umvafin fjallháum haugum af brotajárni og spilliefnum, með tugi ryðdalla úti fyrir ströndinni, gef ég lítið fyrir vinsældir staðarins”.

Svona skrif eru ekki til þess fallin að styðja við heilbrigða umræðu. Ef þessi lýsing Hauks ætti við rök að styðjast yrði ég honum sennilega sammála um verulegan vitsmunaskort okkar Íslendinga, vill ég frekar trúa því að þarna hafi tilfinningar leikið lausum hala á lyklaborðinu. Ekkert í þessum texta styðst við þær upplýsingar sem gefnar voru á áðurnefndum kynningarfundi.

Ég ber virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum varðandi flesta hluti en skal þó viðurkenna að oft skortir mig þolinmæði þegar ég sé hluti á borð borna eins og aðrar skoðanir séu ekki málsins verðar. Sérstaklega á þetta við ef mörg gífuryrði koma við sögu. Það vantar þó ekki að ég sé ein eyru þegar sterk rök fyrir skoðunum eru sett fram.

Ef uppbyggingin, störfin og rekstur þessa fyrirtækis stenst okkar kröfur um mengunarvarnir, hvaða nafni sem sú mengun kallast, skulum við bjóða þessa aðila velkomna til Dalvíkurbyggðar. Við skulum vinna með þeim og reyna að hafa áhrif á hvernig þeir móta fyrirtækið að okkar samfélagi, hvernig það styður við þau fyrirtæki sem eru til staðar og ekki síst, íbúa Hauganess.

Ef þeir segja satt og rétt frá verður þetta fyrirtæki sem setur ný viðmið fyrir þennan iðnað. Þá gæti þetta orðið flott lyftistöng fyrir alla aðila. Meðal annars tökum við með því þátt í að gera jörðina að betri stað til að búa á. Það er jú flókið að fá nýja jörð… hef heyrt því fleygt að Mars sé ekki allra.

Mig langar ekki í orðaskak við neinn og síst ætla ég að mínar skoðanir séu öðrum æðri. En fyrir alla muni, vöndum okkur, sýnum skoðunum annarra virðingu og verum öðrum fordæmi í því hvernig umræðu við sköpum um þetta málefni, sem og önnur.

Þegar ég vona að við vöndum okkur í umræðunni meina ég ALLS EKKI að allir detti í „JÁ” gírinn og haldi því fram að allt kringum þetta fyrirtæki sé og verði æðislegt. Það er ekki þannig. Það er eðlilegt að ekki séu allir á eitt sáttir við svona stóra framkvæmd og svona nálægt byggð. Það er hluti þess að búa í samfélagi við annað fólk.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×