Skoðun

Dagur leiklistar

Leiklistarkennarar skrifar

Árlega er haldið upp á dag leiklistar um allan heim, þann 27. nóvember. FLISS, félag um leiklist í skólastarfi hefur haldið upp á þennan dag með margvíslegum hætti undanfarin ár. Félagið hefur boðið upp á ókeypis vinnusmiðjur fyrir kennara þennan dag, sent kennurum leikræn ferli til notkunar í skólastarfi og kynnt hafa verið fyrir þeim símenntunarnámskeið í tengslum við leiklist í skólum. Í ár er valin sú leið að kynna félagið í fjölmiðlum, segja frá starfsemi þess og hvetja um leið til notkunar leiklistar í skólastarfi.

Í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á sköpunargáfu, aðlögunarhæfni og betri samskiptahæfni einstaklingsins. Þessi áhersla byggir á hugmynd um víðtækari þjálfun ungs fólks til þess að auka sjálfstraust þeirra og gera þau hæfari í breyttum heimi. Börn eru þátttakendur í tæknivæddu neysluþjóðfélagi sem er að mörgu leyti ópersónulegt. Rannsóknir sýna að þeim börnum fjölgar sem hreyfa sig lítið og mörg börn meðtaka aðeins leik með því að horfa á sjónvarp eða leika sér í skipulögðum leikjum sem eru ímynd annarra (tölvuleikir). Sjálfsprottnir leikir eru á undanhaldi. Við teljum að aldrei hafi verið jafnmikil þörf fyrir leiklist, hvort heldur leiklist sem kennsluaðferð í ýmsum greinum eða leiklist sem listgrein þar sem leiklist hjálpar nemendum að skapa, nota ímyndunarafl sitt og taka sjálfstæðar ákvarðanir sem eru þeirra eigin.

Í stöðugri samvinnu

Krafa framtíðar er að fá út í samfélagið einstaklinga sem kunna að vinna saman. Að þeir geti beitt hugsun sinni af innsæi og sköpunarkrafti; kunni að afla sér upply´singa og vinna úr þeim á gagnry´ninn hátt. Leiklist er leið til að koma til móts við þessa kröfu, að hvetja börn til að takast á við óþekktar aðstæður með mismunandi fólki í öruggu umhverfi. Til að vera fær um að gera það með góðum árangi, verða þau að þekkja sjálf sig og geta eflt sköpunargáfu sína í samvinnu við aðra. Nemandi sem hefur þurft að setja sig í spor annarrar manneskju með því að leika ákveðið hlutverk verður væntanlega hæfari til að taka ákvarðanir og móta sér skoðanir sem byggjast á þekkingu á manneskjunni frekar en sá nemandi sem ekki hefur fengið slíkt tækifæri.

Eftir atburði undanfarinna vikna einkennist tíðarandinn af aukinni tortryggni og vantrausti. Leiklist gæti stutt við að eyða þeirri tortryggni, en kennsluaðferðir leiklistar hvetja nemendur til að setja sig í spor annarra, nemendur eru í stöðugri samvinnu og víkka vonandi sjóndeildarhring sinn á umhverfi sitt og heiminn allan.

FLISS, félag um leiklist í skólastarfi var stofnað af leiklistarkennurum árið 2005 í kjölfar aukinnar leiklistarkennslu í grunnskólum landsins. Í upphafi hafði félagið að leiðarljósi að stuðla að eflingu leiklistar í öllu skólastarfi og að leiklist yrði tekin upp sem ein af listgreinum grunnskólanna. Það markmið varð að veruleika með aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013.

Markmið félagsins í dag er m.a. að vinna að eflingu leiklistarkennslu og leiklistar á öllum skólastigum í íslensku skólakerfi, auk þess að efla og fylgja eftir kennslu leiklistar sem sjálfstæðrar listgreinar og gæta þess að samfella sé á milli skólastiga. Félagið heldur úti vinnusmiðjum fyrir félagsmenn og miðlar upplýsingum um ýmis mál er varða leiklistarkennslu. FLISS er aðili að heimssamtökunum IDEA, International Drama/Theater and Education Association þar sem grunnhugsunin er að öll börn eigi rétt á að læra leiklist annað hvort sem sjálfstætt fag, eða læra í gegnum leiklist. Um 90 lönd hvaðanæva úr heiminum eru aðilar að samtökunum.

 

Jóna Guðrún Jónsdóttir

Rannveig Björk Þorkelsdóttir

Ólafur Guðmundsson

Ása Helga Ragnarsdóttir

leiklistarkennarar, fyrir hönd FLISS, félags um leiklist í skólastarfi




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×