Enski boltinn

Conte kallar eftir þolinmæði

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Conte gefur skipanir inn á völlinn.
Conte gefur skipanir inn á völlinn. vísir/getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, kom leikmönnum sínum til varnar á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Hull um helgina.

Undir stjórn Conte byrjaði Chelsea tímabilið af krafti og var með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir en leikmenn liðsins hafa misst flugið undanfarnar vikur.

Eftir óvænt jafntefli í Wales hefur Chelsea tapað tveimur leikjum í röð gegn erkifjendunum í Arsenal og Liverpool.

Eru lærisveinar Conte skyndilega átta stigum á eftir Manchester City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég get ekki gert kraftaverk á nokkrum mánuðum. Liðið lenti í tíunda sæti á síðasta tímabili sem sýnir að það voru vandamál þegar ég tók við. Þegar skipt er um þjálfara á miðju tímabili er ljóst að það eru vandamál,“ sagði Conte og bætti við:

„Ég var vongóður um að ég gæti leyst úr þessu í fljótu bragði en það er ljóst að ég þarf tíma til þess að leysa úr vandamálum liðsins. Stuðningsmennirnir þurfa að vera þolinmóðir því ég mun bæta upp fyrir síðustu leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×