Enski boltinn

City skilaði hagnaði annað árið í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sergio Aguero og Pep Guardiola.
Sergio Aguero og Pep Guardiola. Vísir/Getty
Manchester City skilaði hagnaði á síðasta rekstrarári samkvæmt nýjum ársreikningum sem kynntir voru í gær. Þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum.

Hagnaður félagsins á síðustu leiktíð var 20,5 milljónir punda eða 2,9 milljarðar króna. Tekjurnar námu alls 391,8 milljónum punda eða meira en 55 milljarðar króna. Um 11,4 prósenta aukningu er að ræða á milli ára.

Manchester City er sem fyrr skuldlaust félag en það eyddi 140 milljónum punda í nýja leikmenn á tímabilinu. Liðið hafnaði í fjórða sæti í ensku úrvalsdeildinni í vor sem er versti árangur þess síðan 2010 en vann þó ensku deildabikarkeppninna.

Félagið skipti einnig um þjálfara er Pep Guardiola var ráðinn í stað Manuel Pellegrini.

Manchester City er í eigu Katara en Mansour sjeik keypti það frá Thaksin Shinawatra árið 2008. Fyrstu árin var tapreksturinn mikill en félagið tapaði tæpum 200 milljónum punda fyrir fimm árum síðan.

„2016-17 tímabilið er upphafið á nýjum og mikilvægum kafla í sögu félagsins,“ sagði Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×