Fótbolti

Chelsea vann sinn riðil | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Willian, Diego Costa og Edin Hazard fagna marki þess fyrstnefnda.
Willian, Diego Costa og Edin Hazard fagna marki þess fyrstnefnda. Vísir/Getty
Lærisveinar Jose Mourinho í Chelsea lentu ekki í miklum vandræðum með að vinna Porto á Brúnni í kvöld og tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Chelsea vann leikinn 2-0 en liðið komst yfir strax á tólftu mínútu leiksins þegar Portúgalarnir skoruðu sjálfsmark.

Sigurinn kemur Chelsea ekki aðeins áfram upp úr riðlinum því þessi þrjú stig dugðu mönnum Jose Mourinho líka til að vinna riðilinn sinn. Dynamo Kiev vann sinn leik og fylgir Chelsea í sextán liða úrslitin.

Chelsea fékk draumabyrjun í leiknum þegar Ivan Marcano, varnarmaður Porto, skoraði kostulegt sjálfsmark strax á 12. mínútu eftir að Iker Casillas hafði varið frá Diego Costa.

Maicón reyndi að bjarga en sprotadómarinn dæmdi að boltinn hafi verið farinn inn fyrir marklínuna.

Það var mikil barátta í fyrri hálfleiknum en Chelsea steig stórt skref í átt að sextán liða úrslitunum með því að komast í 2-0 eftir aðeins sjö mínútur í þeim síðari.

Willian skoraði þá eftir laglegan undirbúning Belgans Eden Hazard en Hazard átti einnig þátt í fyrsta markinu þegar hann spilaði Diego Costa í gegn.

Eden Hazard var nærri því að skora sjálfur þegar hann átti skot í stöngina á 81. mínútu.

Chelsea var með góð tök á leiknum á lokakaflanum og landaði dýrmætum sigri. Porto er hinsvegar úr leik í Meistaradeildinni og fer í Evrópudeildina eftir áramót.





Chelsea kemst í 1-0 á móti Porto Willian kemur Chelsea í 2-0 á móti Porto



Fleiri fréttir

Sjá meira


×