Innlent

Byggðaráð Skagafjarðar mótmælir sameiningu heilbrigðisstofnana

Randver Kári Randversson skrifar
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótmælir sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Vísir/Pjetur
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar bókaði í dag mótmæli við setningu reglugerðar heilbrigðisráðherra um sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi. Í tilkynningu frá Sveitarfélaginu Skagafirði kemur fram að sameiningin sé þvert gegn vilja íbúa Skagafjarðar, enda sé algjör óvissa um hvaða þjónustu ný stofnun muni veita þeim. 

Jafnframt segir í tilkynningunni að Sveitarfélagið Skagafjörður sé í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um yfirtöku á rekstri Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki með samningi við Sjúkratryggingar Íslands og mikilvægt sé að setning reglugerðarinnar hafi ekki áhrif á þær viðræður, sem ekki sé lokið.

Byggðarráð brýnir fyrir stjórnvöldum að hlusta á og virða vilja íbúa við setningu laga og reglugerða.

Samkvæmt reglugerðinni sem gefin var út þann 9. júlí síðastliðinn verða Heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, heilsugæslustöðvarnar á Dalvík og Akureyri og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sameinaðar í Heilbrigðisstofnun Norðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×